Þann 5. júlí birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu um breytingu á rammatilskipun um úrgang (2008/98/EC).
Í rammatilskipuninni eru sett fram grunn viðmið og skilgreiningar sem tengjast úrgangsstjórnun og ábyrgð á henni. Markmið með breytingunum er að víkka út ákvæði um söfnun og aðra meðhöndlun textílúrgangs og setja markmið um matarsóun.
Breytingar á úrgangstilskipun
Í Græna samningi Evrópu og Framkvæmdaáætlun ESB um hringlaga hagkerfi var kallað sérstaklega eftir aðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum textíls- og matvælaiðnaðarins. Vilji var til að leitað yrði leiða til að hraða innleiðingu hringlaga hagkerfis og lágmarka kolefnislosun. Matvæli og vefnaðarvörur eru auðlindafrekar og taldi ESB tækifæri til að gera betur í að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurvinnslu í geirum þeim tengdum. Sett voru eftirfarandi markmið með endurskoðun rammatilskipunar:
– Að draga úr umhverfis- og loftslagsáhrifum, auka umhverfisgæði og bæta lýðheilsu í tengslum við úrgangsstjórnun á textíl í samræmi við forgangsröðun í meðhöndlun úrgangs, þ.e. svokallaðan úrgangsþríhyrning.
– Að draga úr umhverfis- og loftslagsáhrifum matvælaiðnaðarins sem tengjast matarsóun. Með þessu er stuðlað að auknu matvælaöryggi.
Í tillögum framkvæmdarstjórnar ESB er m.a. lagt til að sérstök söfnun, flokkun, endurnotkun og endurvinnslu á textíl á svæði ESB verði flýtt. Framkvæmdastjórnin leggur til að tekið verði upp lögboðið og samræmt kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar fyrir textíl í öllum aðildarríkjum ESB. Sýnt hefur verið fram á að framleiðendaábyrgðarkerfi í Evrópu hafa skilað árangri í að bæta úrgangsstjórnun svo sem á umbúðum, rafhlöðum og raf- og rafeindabúnaði. Framlengd framleiðendábyrgð á textíl hefur verið innleidd í nokkrum Evrópuríkjum nú þegar. Ef þessar tillögur ná fram að ganga munu framleiðendur og innflytjendur textíls standa straum af kostnaði við meðhöndlun textíls eftir að hann verður að úrgangi. Þannig er ætlunin að verði til hvati til að draga úr sóun og auka endurnotkun og endurvinnslu á textíl, þá sér í lagi með því að hanna betri vörur frá upphafi. Hversu mikið framleiðendur og innflytjendur munu greiða til framleiðendaábyrgðarkerfisins verður leiðrétt á grundvelli umhverfisframmistöðu textíls á þeirra vegum í gegnum, þ.e. í gegnum svokölluð ,,þrepaskipt gjöld“.
Nýleg lög leggja auknar kröfur á sveitarfélög
Íslenska ríkið innleiddi kröfu um sérstaka söfnun texíls tveimur árum áður en úrgangstilskipun Evrópusambandsins (2008/98/EC) gerir ráð fyrir, þ.e. árið 2023 í stað 2025. Þann 1. janúar komu því til framkvæmda ýmis ákvæði laga 103/2021 er varða meðhöndlun á textíl. Sveitarfélögum er með lögunum gert að safna textíl á grenndarstöðvum sem eiga að vera að staðsettar í ,,nærumhverfi við íbúa”. Í lögunum er óheimilt að blanda saman úrgangsflokkum sem hefur verið sérstaklega safnað og því er sveitarfélögum gert að ráðstafa textíl til endurnotkunnar eða endurvinnslu eftir að söfnun hefur farið fram. Einnig er sveitarfélögum gert að nota samræmdar norrænar merkingar EUPicto fyrir söfnun á textíl.
Sveitarfélögum hefur til fjölda ára samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs verið gert að innheimta að fullu gjöld upp í kostnað sem hlýst af meðhöndlun úrgangs og þurfa því að innheimta gjöld í samræmi við kostnað vegna söfnunar og annarrar meðhöndlunar textíls. Framlengd framleiðendaábyrgð á textíl hefur ekki verið innleidd hérlendis samhliða auknum kröfum til sveitarfélaga um meðhöndlun á textílúrgangi og því fellur kostnaður umfram tekjur af endursölu á textíl á sveitarfélög sem þurfa að innheimta gjöld í takt við aukin kostnað.
Ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun textíls
Ábyrgð sveitarfélaga á söfnun og annarri meðhöndlun á textíl fellur ekki niður þó að aðrir sjái um framkvæmdina og því þurfa sveitarfélög að tryggja söfnun og aðra meðhöndlun textíls á sínu svæði sem uppfyllir skilyrði laga um ráðstöfun til endurnotkunnar og endurvinnslu. Rauði kross Íslands rekur söfnunargáma víðsvegar um landið og í sumum tilfellum í samstarfi við sveitarfélög auk þess sem söfnun á textíl fer fram af Hertex og fleiri minni góðgerðasamtökum en í minna mæli. Í minnisblaði Ríkiskaupa, dags. 4. apríl 2023, sem unnið var fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga um skyldu sveitarfélaga til að bjóða út hirðu og ráðstöfun úrgangs á vegum góðgerðarsamtaka kemur fram að ekki skylt að bjóða út söfnun og aðra meðhöndlun á úrgangi sem þeim er gert að safna ef góðgerðarsamtökum er falið að annast söfnunina og meðhöndlun úrgangsins, þar með talið að hagnýta sér hann, án þess að þiggja annað endurgjald fyrir. Ríkiskaup leggja hins vegar til að sveitarfélög geri sérstakan þjónustusamning við þau góðgerðarsamtök sem falið er að framkvæma þjónustuna þar sem að lágmarki komi fram hvar söfnunin skuli fara fram og hvað teljist eðlilegt þjónustustig, t.d. hversu oft eigi að tæma söfnunargáma svo sveitarfélagið geti tryggt sínar lögbundnu skyldur samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs.
Umfjöllun á íslenska sveitarstjórnarstiginu
Verkefnastjórn sveitarfélaga í úrgangsmálum sem Samband íslenskra sveitarfélaga heldur utan um hefur fjallað ítrekað um söfnun og aðra meðhöndlun á textíl á fundum sínum. Á fundi verkefnisstjórnar 8. maí var m.a. eftirfarandi bókað:
Mikilvægt er að aðgreina textíl frá öðrum úrgangi og hámarka endurnotkun og endurnýtingu ásamt því að veita góða þjónustu við íbúa. Tryggja þarf að sveitarfélög verði ekki fyrir óhóflegum kostnaði og umsýslu við að því að rækja lagalega ábyrgð sína á textílsöfnun. Bæta þarf utanumhald um magn og kostnað vegna textílssöfnunar og -meðhöndlunar. Verkefnisstjórnin telur bagalegt að íslensk sveitarfélög hafi þurft að uppfylla kröfur um textílsstöfnun tveimur árum á undan öðrum Evrópulöndum. Þessi nýja ábyrgð getur verið íþyngjandi fyrir sveitarfélög, sér í lagi þau smærri og dreifbýlu. Verkefnisstjórnin telur brýnt að hraða vinnu við að innleiða framlengda framleiðendaábyrgð á textíl, sem nú hefur verið innleidd í sumum löndum Evrópu og ESB er nú að skoða að gera kröfu í aðildarríkjunum, til að draga úr kostnaði sveitarfélaga. Verkefnisstjórnin ákveður að skipa starfshóp með fulltrúum SORPU bs. og sambandsins sem mun leggja mat á stöðu innleiðingar á söfnun og meðhöndlun á textíl
Helstu upplýsingar um tillögu ESB: fréttatilkynning, tillaga framkvæmdarstjórnarinnar og spurningar og svör um matarúrgang