25. sep. 2015

Aukin útgjöld vegna ferðafólks en hvar eru tekjurnar?

 

Hlutverk sveitarfélaga í ferðaþjónustu á Íslandi er verulegt og vaxandi og útgjöld þeirra aukast í samræmi við það. Sveitarfélögin skortir hins vegar tekjur til að standa undir þjónustu sinni og verkefnum, þrátt fyrir að mörg ný störf hafi skapast í greininni sem hafa fært sveitarfélögum útsvarstekjur. Þetta kom fram í erindi Kristins Jónassonar, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

 

Kristinn segir að stórfelld fjölgun ferðamanna sé ánægjuleg staðreynd en kalli jafnframt á viðbrögð af hálfu sveitarfélaganna.

 

Hann segir að

 

 

  • þörf sé á skýrri stefnumótun sveitarfélaga og að hún nái til stærri svæða en hvers einstaks sveitarfélags.
  • stefnumótunin geti gerst í gegnum svæðisskipulag og aðalskipulag, sem síðan yrði fylgt eftir í deiliskipulagi og við hönnun áfangastaða. Slíkt skuli gera í samráði við þá sem hagsmuna eiga að gæta.
  • sveitarfélögin þurfi alvöru tekjustofna til að mæta auknu álagi og verkefnum vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu. 
  • gjaldtaka af ferðamönnum sé nauðsynleg og að endurskoða þurfi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
  • sveitarfélög verði að breyta viðhorfum sínum um gestgjafa- eða þjónustuhlutverk sitt.
  • að breyta verði úreltum lagaákvæðum.

 

„Í samandregnu máli þýðir þetta að skerpa verður á hlutverkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga,“ sagði bæjarstjórinn.

 

 

Kröfur um verkefni án þess að tekjur fáist á móti

 

 

„Svæðisskipulag er afar gott tæki fyrir sveitarfélög við stefnumótun á stærri svæðum. Með svæðisskipulagi er meðal annars hægt að draga upp mynd af náttúrunni á svæðinu, leggja áherslu á menningu og sögu og þann anda er einkennir svæðið, þannig að það fái sem heild skýra ímynd í huga bæði heimamanna og gesta.

 

 

Ef við veltum fyrir okkur stöðunni er varðar hlutverk sveitarfélaga, er það allstórt hvað ferðaþjónustu varðar en frekar fátæklegt hvað tekjur varðar:

 

 

  • Flest sveitarfélög reka ýmsa þjónustu, svo sem tjaldstæði, söfn, upplýsingamiðstöðvar, sundlaugar, markaðsstofur, annast útgáfu ferðamálabæklinga, gerð upplýsingaskilta, snjómokstur á ferðamannaleiðum yfir vetrartímann og fleira.
  • Þungi þessara þjónustuþátta hefur aukist stórlega síðustu misserin vegna fjölgunar ferðamanna.
  • Auk þessa eru sveitarfélögin að leggja töluverða fjármuni í gerð sérstakra áningastaða fyrir ferðamenn, göngustíga og stikun gönguleiða en geta í sumum tilfellum fengið 50% styrk til þess í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
  • Að mínu mati er ekki eðlilegt að gera þessar kröfur á sveitarfélögin, hvorki um aukna þjónustu né um uppbyggingu ferðamannastaða, án þess að þau fái afmarkaðar tekjur til að sinna öllum þessum verkefnum.“

 

 

Íslendingar hætti að ganga úr rúmum fyrir gesti sína!

 

 

Kristinn segir að ríkinu beri að líta á sveitarfélögin sem alvöruþátttakendur í uppbyggingu og þjónustu við ferðafólk. Sveitarfélögin eigi að gera skýra kröfu um hlut í tekjum af ferðaþjónustunni, enda séu þau einmitt rétta stjórnsýslueiningin til að skipuleggja flæði og upplifun gesta á svæðunum.

 

 

Hann kallaði eftir því að gjald yrði innheimt hjá öllum sem kæmu til landsins og að innheimta eigi gjöld á „góðum bílastæðum“. Kristinn viðraði sömuleiðis þá skoðun að taka eigi á því þegar ferðafólk stoppar yfir nótt í nálægt tjaldssvæðum og notar þjónustu þar en borgar ekki fyrir hana. „Mín afstaða er skýr. Þetta á ekki að leyfa en við getum ákveðið og tilkynnt slíkt með góðum fyrirvara og þá tala ég um þrjú til fimm ár.“

 

 

Bæjarstjórinn hvatti til þess að Íslendingar breyttu viðhorfum sínum gagnvart ferðaþjónustu.

 

 

„Við þurfum að hætta að að vera gestgjafar og ganga úr rúmum er gest ber að garði. Við eigum að veita framúrskarandi þjónustu og hafa mikinn metnað til að bjóða einstaka upplifun. Fyrir slíkt eru ferðamenn tilbúnir að borga sanngjarnt verð.

 

 

Ekki er nóg að flutningafyrirtæki, gististaðir, veitingahús og ferðaþjónustufyrirtækin fái sitt. Þeir sem sjá  um áningarstaðina verða líka að fá tekjur til að geta tekið á móti fólkinu, tryggt öryggi þess og séð til þess að upplifunin verði ánægjuleg. Auðvelt er að gera kröfur á aðra (sveitarfélögin) en hirða síðan allar tekjurnar sjálfur!“