Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfis-, orku og loftlagsráðherra áttu samráðsfund í húsakynnum sambandsins í gær þar sem rætt var um skattlagningu orkumannvirkja og skipulag á uppbyggingu vindorkuvera og aukið samstarf ráðuneytisins við sambandið í þessum málum.
Von er á niðurstöðum tveggja starfshópa fyrir ármót og voru aðilar fundarins sammála um að mikilvægt sé að kynna niðurstöður þeirra vel og fá góða umræðu á sveitarstjórnarstiginu um málin.
Fráveitumál voru einnig til umræðu en á vegum Evrópusambandsins er nú unnið að nýrri tilskipun í þeim málaflokki sem að óbreyttu mun kalla á verulega innviðauppbyggingu. Fulltrúi sambandsins í Brussel hefur unnið ötullega að hagsmunagæslu í málinu ásamt fulltrúum stjórnarráðsins í Brussel enda ljóst að sérstaða Íslands er veruleg í þessu máli. Áfram verður áhersla sameiginlegra vinnu við að fá sérstöðu Íslands viðurkennda í þessu máli.
Málefni Úrvinnslusjóðs og aukinn kostnaður sveitarfélaga við meðhöndlun úrgangs voru einnig rædd og ákveðið var að sambandið og ráðuneytið myndu setjist saman yfir þær greiningar sem liggja fyrir um sjóðinn og kerfið í kringum hann. Þá greindi sambandið frá því að það væri að gera sértaka greiningu á þróun kostnaðar sveitarfélaga í úrgangsmálum.
Þá var einnig rætt um samstarfssamning ráðuneytisins, sambandsins og RANNÍS varðandi samhæfingu sóknar í Evrópusjóði en á vegum hans eru fjölmörg spennandi verkefni að teiknast upp. Að lokum var rætt um endurnýjun samstarfssamnings sambandsins og ráðuneytisins en stefnt er að því að hann taki í auknum mæli til verkefna á sviði loftlags- og úrgangsmála.
Sambandið þakkar ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir góðan fund að hlakkar til áframhaldandi samstarfs um þau fjölmörgu spennandi verkefni sem framundan eru.