Auglýst eftir umsóknum í þróunarsjóð innflytjendamála

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála 2018-2019. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. 

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála 2018-2019. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags.

Við ákvörðun um styrkveitingar verður að þessu sinni lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast börnum og ungmennum af erlendum uppruna.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast vinnumarkaðsmálum innflytjenda.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og auka sýnileika þeirra.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem falla vel að áherslum þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 sem samþykkt var á Alþingi 20. september 2016.

Önnur rannsóknar- og þróunarverkefni koma einnig til álita.

Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum og eru félags- og hagsmunasamtök innflytjenda sérstaklega hvött til þess að sækja um. Varðandi umsóknir einstaklinga er meginreglan sú, að þeir hljóti styrki til rannsókna.

Að þessu sinni verða 25 milljónir króna til úthlutunar og geta styrkir að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Tekið verður við umsóknum bæði á íslenskum og ensku.

Vakin er athygli á að innflytjendaráð gengst fyrir opnum kynningarfundi um umsóknarferli sjóðsins ,  úthlutunarreglur og -áherslur ársins í janúar næstkomandi. Verður tilhögun fundarins kynnt betur þegar nær dregur.

Umsóknarfrestur er til 31. janúar 2019. 

Eingöngu verður tekið við rafrænum umsóknum af eyðublaðavef Stjórnarráðsins; minarsidur.stjr.is

Nálgast má nánari upplýsingar um þróunarsjóðinn á vef Stjórnarráðsins. Einnig má í þessu samhengi vísa í  framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Þá kemur fram í frétt á velferðarráðuneytis um málið að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hafi aukið framlög til sjóðsins úr 10 m.kr. í 25 m.kr. Ráðherra leggi jafnframt áherslu á að veittir verði styrki til verkefna í þágu barna og ungmenna.

Frekari upplýsingar fást í velferðarráðuneytinu í síma 545 8100 eða á netfanginu postur@vel.is