Sveitarfélög vilja sanngjarna hlutdeild í tekjum hins opinbera af sameiginlegum auðlindum

Samband íslenskra sveitarfélaga styður ekki frumvarp til laga um gjald vegna nýtingar eldissvæða í sjó. Að áliti sambandsins er um auðlindagjald að ræða, sama hvaða nafni það nefnist og að stofni til beri gjaldinu því að standa undir uppbyggingu sveitarfélaga vegna fiskeldis.

 

Samband íslenskra sveitarfélaga styður ekki að gjald vegna nýtingar eldissvæða í sjó renni óskipt í ríkissjóð. Að áliti sambandsins er um auðlindagjald að ræða, sama hvaða nafni gjaldið nefnist og að stofni til beri því að standa undir uppbyggingu sveitarfélaga vegna fiskeldis.

Í drögum að frumvarpi atvinnuvegaráðuneytis vegna málsins, er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafi greiði gjald fyrir afnot eldissvæða, sem rennur óskipt í ríkissjóð í samræmi við lög um opinber fjármál. Stefnt að er því, að endurgjaldið verði innheimt frá og með árinu 2020 af leyfilegu framleiðslumagni eldisfisks í sjó, eins og það er tilgreint að hámarki í rekstrarleyfum. Miðað við framleiðsluáætlanir má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs nemi rúmum milljarði króna árið 2023, nái frumvarpið fram að ganga.

Í umsögn sem sambandið hefur, í samráði við Samtök sveitarfélaga í fiskeldi, gert um frumvarpsdrögin er m.a. minnt á niðurstöður nefndar um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins (auðlindastefnunefnd), sem forsætisráðherra skipaði vorið 2011. Skilaði nefndin rúmu ári síðar skýrslu til ráðherra, þar sem lagt var til að stærstur hluti auðlindagjalds á fiskeldi í sjó renni til sveitarfélaga þar sem eldi á laxi og silungi er stundað.

Nefndin bendir á að í ljósi þess að auðlindaarður verður til vegna verðmætis auðlinda víða um land og að nærsamfélögin þurfa oft að færa fórnir og taka á sig kostnað, vegna nýtingar, þróunar og hagræðingar í einstökum auðlindagreinum, er bæði sjálfsagt og eðlilegt að tryggja að hluti auðlindaarðsins renni til verkefna í þessum samfélögum, ekki síst til eflingar innviða og fjölbreyttara atvinnulífs. Með þeim hætti getur auðlindaarðurinn orðið undirstaða öflugri byggða og atvinnulífs um land allt. Slík ráðstöfun er einnig mikilvæg til að tryggja sátt um fyrirkomulag auðlindamála

 
Þá er einnig minnt á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi, sem skilaði skýrslu til ráðherra síðla sumar 2017, en þar er lagt til með vísan í skýrslu auðlindastefnunefndar, að allt að 85% af innheimtu auðlindagjaldi renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu í fiskeldi.

[…] 15% auðlindagjalds verði ráðstafað sem framlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til þess að efla vöktun og rannsóknir í fiskeldi og frekari þróun þess og að afgangurinn allt að 85% af innheimtu auðlindagjaldi, renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.

Sætir að mati sambandsins furðu, sá viðsnúningur sem átt hefur sér stað í afstöðu ríkisstjórnar til umrædds endurgjalds, án sýnilegs rökstuðnings og þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir því að hluti þeirra tekna, sem annars kæmi ríkissjóði eða umhverfissjóði fiskeldis til tekna, renni til sveitarfélaganna.

Í umsögninni er enn fremur undirstrikað, að um sanngjarna hlutdeild sé að ræða í tekjum hins opinbera af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, gegn þeim auknu verkefnum sem sveitarfélög standi frammi fyrir samfara uppbyggingu í fiskeldi, sbr. gr. 3.1.13 í nýsamþykktri stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2018-2022.

Segir enn fremur í stefnu Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga í fiskeldi að tryggja verði tekjustofna sveitarfélaga af atvinnustarfsemi í sjó, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, svo að þau sveitarfélög þar sem fiskeldi haslar sér völl, geti lagað samfélagslega uppbyggingu hjá sér að örum vexti atvinnugreinarinnar.

Umsagnarfrestur um frumvarpsdrögin rennur út næstkomandi sunnudag, þann 13. janúar. Fregnir hafa þegar borist af óánægju sveitarfélaga innan fiskeldissvæða landsins með frumvarpið. Hefur í því sambandi m.a. verið bent á að tekjur sveitarfélaga af fiskeldi séu bundnar við starfsemi í landi. Í þeim tilvikum sem starfsemin felst eingöngu í kvíaeldi í sjó, sitji sveitarfélög óbætt eftir þrátt fyrir aukin verkefni.