Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í átjánda sinn í Brussel 6.-7. desember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Nýir fulltrúar Íslands tóku þátt í þessum fundi, þau:
- Eggert Kjartansson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
- Sigurður Hreinsson, varaformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
- Þorleifur Karl Eggertsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
- Rakel Óskarsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu og
- Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi tilnefnd af Reykjavíkurborg.
Kolbrún J. Pétursdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum tók einnig þátt í fundinum í forföllum Rósu Guðbjartsdóttur formanns Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; Rakel Óskarsdóttir, var á fundinum kjörin nýr varaformaður vettvangsins.
Helstu viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni voru áframhaldandi aðkoma sveitarfélaga að samstarfsáætlunum ESB, útganga Breta úr ESB (Brexit) og ný tilskipun ESB sem snýr að „vernd hvíslara“. Einnig var fundað með fulltrúum Svæðanefndar Evrópusambandsins.
Fjölmörg tækifæri fyrir íslensk sveitarfélög innan samstarfsáætlana Evrópusambandsins
Sveitarstjórnarvettvangurinn hlýddi á kynningu Egils Eyjólfssonar, sérfræðings hjá EFTA skrifstofunni, um samstarfsáætlanir ESB. Samstarfsáætlanirnar styrkja opinbera aðila, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga, en markmiðið er að auka félagslegan og efnahagslegan jöfnuð og styðja við framþróun og sjálfbæran hagvöxt í Evrópu. EES-samningurinn veitir Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að áætlunum ESB og hafa íslensk sveitarfélög tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna. Má þar nefna rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB (Horizon 2020), styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál (Erasmus+) og Norðurslóðaáætlunina.
Um þessar mundir er unnið að fyrirkomulagi samstarfsáætlana ESB á næsta styrkjatímabili, 2021–2027. Áframhaldandi þátttaka Íslands, Liechtenstein og Noregs er til athugunar en búast má við aukinni þátttöku ríkjanna, einkum í samstarfsáætlunum sem snúa að loftslagsmálum, borgararaþátttöku og vinabæjasamstarfi. LIFE, styrkjaáætlun ESB fyrir umhverfis- og loftslagsmál, er dæmi um samstarfsáætlun þar sem þátttaka er til athugunar. Anne Burill, fulltrúi framkvæmdastjórn ESB flutti erindi um LIFE á fundi vettvangsins.
Reynsla sveitarfélaga af samstarfsverkefnum sem fjármögnuð eru af ESB er almennt mjög góð og frekari þátttaka í samstarfsáætlunum ESB myndi skapa fjölmörg tækifæri fyrir sveitarfélög á Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Þar um ræðir hvort tveggja: aukinn aðgang að fjármagni og ríkara samstarf við sveitarfélög á EES svæðinu.
Á fundinum var samþykkt ályktun um samstarfsáætlanir ESB þar sem mikilvægi áframhaldandi þátttöku Íslands, Liechtenstein og Noregs í áætlununum var áréttað. Auk þess var lögð áhersla á samráð við sveitarstjórnarstigið þegar teknar eru ákvarðanir um þátttöku í samstarfsáætlunum. Ályktunin var flutt af Kolbrúnu Jónu Pétursdóttur, formanni Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EFTA ríkjanna, ESB og stofnanir EFTA.
Útganga Breta úr Evrópusambandinu
Sveitarstjórnarvettvangurinn ræddi málefni tengd Brexit við sveitarstjórnarmennina David Simmonds frá Englandi og Tony Buchanan frá Skotlandi sem sitja báðir í Svæðanefnd ESB. Niðurstaða Brexit er enn ófyrirséð en það er hins vegar ljóst að Brexit hefur þegar áhrif á bresk sveitarfélög. Víða vantar starfsfólk þar sem staða erlends vinnuafls er óviss og af þeim sökum erfiðara að fá erlenda starfsmenn til starfa en áður. Það má leiða rökum að því að þetta sé einmitt eitt af markmiðum Brexitsinna, þ.e.a.s. að lækka hlutfall útlendinga á vinnumarkaði og fylla skörðin með innlendu vinnuafli. Á móti kemur að starfsemi margra sveitarfélaga og fyrirtækja krefst erlends starfsfólks. Þetta á ekki einungis við um þjónustustörf, vandinn er einnig tengdur t.d. heilbrigðisgeiranum og þá einkum í fámennum byggðarlögum þar sem skortur er á sérhæfðu starfsfólki.
Þá var rætt um stöðu samtaka sveitarfélaga í Englandi, Wales og Skotlandi innan Evrópu í kjölfar Brexit. Simmonds og Buchanon voru sammála um að tryggja þyrfti aðkomu breskra sveitarfélaga að því starfi sem fram fer innan evrópska sveitarstjórnarstigsins, t.d. innan Svæðanefndar Evrópu og áhersla verði eftir sem áður lögð á þátttöku í Evrópusamtökum sveitarfélaga, CEMR. Þá kom fram á máli þeirra að staða breskra sveitarfélaga sé töluvert frábrugðin stöðu evrópskra sveitarfélaga m.a. vegna þess að í Bretlandi er ekki fyrir hendi stjórnarskrá sem tryggir sjálfsforræði sveitarfélaga. Bresk ákvarðanataka sé mjög miðlæg, þ.e.a.s. að hefð sé fyrir því að ákvarðanir sem varða sveitarstjórnarstigið séu teknar í Westminster frekar en á sveitarstjórnarstigi. Þeir telja lítinn vilja til þess að breyta þessu fyrirkomulagi og auk þess megi færa rök fyrir því að gagnrýni Breta á ákvörðunartöku innan Evrópusambandsins megi að einhverju leyti rekja til þessarar hefðar.
Á fundinum sagði Andri Lúthersson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, frá undirbúning EFTA ríkjanna til að bregðast við Brexit. Undirbúningurinn miðar að því að EFTA ríkin geti brugðist hratt og örugglega við útgöngu Breta, meðal annars hvað varðar stöðu ríkisborgara EFTA ríkjanna í Bretlandi, verslun og viðskipti á milli landana og áframhaldandi stjórnmálalegt samstarf.
„Vernd hvíslara“ mikilvægt í nútíma samfélagi
Tilskipun ESB um „vernd hvíslara“, Directive on the protection of persons on breaches of Union law – Whistleblower protection, var til umfjöllunar á fundinum. Ewa Biernat, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, fór yfir efni tilskipunarinnar. Danskur fulltrúi í Svæðanefnd Evrópusambandsins, Jens Christian Gjesing, kynnti afstöðu nefndarinnar til tilskipunartillögunnar.
Nýleg dæmi, t.d. Panama-skjölin og starfsemi Cambridge Analytica, hafa sýnt fram á að s.k. „hvíslarar“ geta gegnt mikilvægu hlutverki í að afhjúpa ólöglega starfsemi sem skaðar velferð borgara og samfélagsins. Að sama skapi er nauðsynlegt að tryggja vernd starfsmanna sem upplýsa stjórnvöld og almenning um ólöglegt athæfi. Þetta er einkum mikilvægt þegar starfsmaður getur átt á hættu að missa starf sitt og þar með lífsviðurværi ef hann tilkynnir um hugsanleg brot t.d. vinnuveitenda síns. Í þessu ljósi er mikilvægt að tryggja „vernd hvíslara“ og tillaga ESB kveður á um ferli sem eiga að stuðla að því. Í drögum að tilskipuninni er t.d. að finna tillögu að þriggja þrepa tilkynningarferli þar sem starfsmaður tilkynnir fyrst hugsanlegt brot til tiltekinna aðila innan fyrirtækisins. Ef það skilar ekki árangri, eða er ekki gerlegt sökum stöðu starfsmannsins, þá skal tilkynna hugsanlegt brot til opinberra aðila. Skili það ekki árangri getur viðkomandi starfsmaður snúið sér til fjölmiðla. Í þessu ferli er það grundvallaratriði að viðkomandi starfsmenn hljóti vernd og stofni hvorki orðspori sínu né atvinnuöryggi í hættu.
Á Íslandi er ekki að finna heildstæða löggjöf um „vernd hvíslara“, en ákvæði um „vernd hvíslara“ er þó að finna í íslenskum lögum, t.d. í Útvarpslögum frá 2001. Ljóst er að tillaga framkvæmdastjórnar ESB er áhugaverð fyrir íslenska aðila, en það á eftir að skera úr um hvort tilskipunin er EES-tæk. Drögin taka eingöngu til brota á ESB löggjöf.
Á fundinum var samþykkt ályktun um „vernd hvíslara“ þar sem áhersla er lögð á að vernda „hvíslara“ og að ferlið sé gagnsætt og sanngjarnt bæði fyrir „hvíslarann“ og fyrirtæki eða einstaklinga sem „hvíslað“ er um. Auk þess er lögð áhersla á að tilskipunin sé ekki óþarflega íþyngjandi fyrir sveitarfélög og þá einkum fámenn sveitarfélög. Í ályktuninni er kallað eftir ákveðnum sveigjanleika, t.d. að sveitarfélög geti sett upp sameiginlegt ferli, eða að notast sé við ferli sem eru til staðar. Ályktunin var flutt af Lise Selnes frá Noregi. Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EFTA ríkjanna, ESB, stofnanir EFTA og Svæðanefnd Evrópusambandsins.
Aukið samstarf við Svæðanefnd Evrópusambandsins
Sveitarstjórnarvettvangurinn fundaði með norrænum fulltrúum Svæðanefndar Evrópusambandsins. Svæðanefndinni var komið á fót með Maastricht-sáttmálanum árið 1994 til að efla aðkomu sveitarstjórna og annarra svæðisbundinna yfirvalda í aðildarríkjunum að ákvarðanatökuferli Evrópusambandsins. Svæðanefndin gegnir ráðgefandi hlutverki gagnvart Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu um drög að stefnumótun og löggjöf ESB sem snertir sveitarstjórnarstigið.
Tilgangur fundarins var að ræða með hvaða hætti megi auka samstarf Sveitarstjórnarvettvangs EFTA og Svæðanefndar Evrópusambandsins. Fulltrúar Svæðanefndarinnar, sveitarstjórnarmenn frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, tóku vel í hugmyndir Sveitarstjórnarvettvangs EFTA um aukið samstarf. Það var almennt álit fundarmanna að verkefni og áskoranir evrópskra sveitarfélaga séu um margt svipaðar. Það kemur í hlut evrópskra sveitarfélaga að framkvæma stóran hluta evrópskrar löggjafar, staðreynd sem á einnig við um sveitarfélög á Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss. Það var samdóma álit fundarmanna að aukið samstarf væri mjög gagnlegt fyrir báða aðila. Í því ljósi var lagt til að fulltrúar Sveitarstjórnarvettvangs EFTA og Svæðanefndar Evrópusambandsins fundi reglulega, auk þess sem formaður, Nils Røhne, og varaformaður, Rakel Óskarsdóttir, Sveitarstjórnarvettvangs EFTA fundi reglulega með forseta Svæðanefndarinnar.
Önnur mál
Marthe Indset frá NIBR, norskri rannsóknamiðstöð á sviði sveitarstjórna og svæða, fjallaði um nýlega rannsókn á aðkomu norskra sveitarfélaga og fylkja að málefnum tengdum ESB. Rannsóknin fólst í því að gerð var úttekt á dagskrám sveitar- og fylkisstjórna. Hliðstæðar rannsóknir hafa verið gerðar í norrænu löndunum sem eru aðilar að ESB. Í kynningu Marthe kom fram að málefni tengd ESB eru stóri hluti af dagskrám sveitarfélaga og fylkja í Noregi. Þar kom meðal annars fram að 48% þeirra mála sem fjallað er um á fundum sveitarstjórna í Noregi eru með einum eða öðrum hætti tengd stefnumörkun sem á rætur sínar að rekja til ESB og 42% mála eru tengd evrópskri löggjöf. Áhrifa stefnumörkunar og löggjafar ESB gætir einkum á þeim sviðum sem varða ríkisaðstoð, umhverfis- og loftslagsmál, samgöngur og skipulagsmál. Í skýrslunni var einnig horft til þess hvernig þessum málum er háttað í Danmörku og Svíþjóð. Þá kom í ljós að 32% mála á borði sveitarstjórna í Danmörku eru tengd löggjöf ESB og 22% í Svíþjóð. Þessi samanburður er sérlega áhugaverður í ljósi þess að Danmörk og Svíþjóð eru aðildarríki ESB, á meðan að Noregur tengist ESB í gegnum EES samninginn. Skýringarnar eru taldar geta legið í mismunandi hefðum fyrir hvers konar mál eru sett á dagskrá sveitar- og svæðastjórna.