Áskoranir og tækifæri fram undan á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst í morgun, en hún fer fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag og á morgun. Þar kemur sveitarstjórnarfólk saman til skrafs og ráðagerða varðandi fjármál og verkefni sveitarfélaga, ásamt því að ræða þau mál sem efst ber á baugi í sveitarstjórnarmálum.

Megintilgangur ráðstefnunnar er að gefa sem best yfirlit yfir efnahag og forsendur fyrir næsta ár sem sveitarstjórnir þurfa að hafa við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti ráðstefnuna og kom inn á málefni fatlaðs fólks í setn­ing­ar­ræðu sinni og sagði meðal annars að auknum kröfum á sveitarfélögin í málaflokknum hefði ekki fylgt fullnægjandi fjármagn frá ríkinu.

Nú liggur fyrir að hallinn á málaflokknum hafi numið röskum 14 milljörðum króna árið 2021 og að uppsafnaður halli frá 2018 til 2021 hafi verið um 32 milljarðar króna á föstu verðlagi. Framundan eru gríðarlega kostnaðarsöm og mikilvæg verkefni sem lúta að því að tryggja fötluðu fólki íbúðir með þjónustu og hefur kostnaður við þessi verkefni verið metin á um 10 milljarða króna. Ég vil taka það skýrt fram að þessi uppsafnaði halli og þessu kostnaðarsömu verkefni snúa nákvæmlega ekkert að ofþjónustu sveitarfélaga gagnvart þessum málaflokk þó svo fjármálaráðherra hafi ýjað að því í viðtali á dögunum. Slík meint ofþjónusta er einfaldlega ekki til staðar, eins og fatlað fólk getur vitnað um.

Ég held það sé óhætt að fullyrða að engin þjónusta sem hið opinbera veitir hefur verið greind jafn ítarlega og mikið. Krafa sveitarfélaga um fulla fjármögnun er skýr, hún er hávær og við munum fylgja henni eftir af fullum þunga í viðræðum við ríkið. Við viljum geta veitt fötluðu fólki þá þjónustu sem það á lagalegan rétt á,“ sagði Heiða í ávarpi sínu.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra ávarpa einnig ráðstefnuna. Þá er fjöldi annarra áhugaverðra erinda á dagskrá þar sem áherslan er á afkomu sveitarfélaga og horfum til næstu ára. Ráðstefnunni er streymt beint á vef sambandsins og hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar.

Fjármálaráðstefnunni lýkur svo á tveimur málstofum, sem fram fara fyrir hádegi á morgun, föstudag. Á annarri málstofunni verður áherslan á fjármál og rekstur, en hin málstofan um fjármál og fræðslumál. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga er fjölmennasti viðurður ársins hjá sveitarstjórnarmönnum, en þátttakendur í ár eru tæplega 500 talsins.