Ársskýrsla innflytjendaráðs komin út

Einungis einn af þeim 18 starfshópum sem kveðið er á um í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, hefur verið settur á fót, að því er fram kemur í ársskýrslu innflytjendaráðs fyrir nýliðið ár. Mikilvægt er að mati ráðsins að upplýsingaflæði verði aukið á milli þeirra aðila sem að framkvæmd áætlunarinnar koma og utanumhald eflt með framvindu verkefna.

Einungis einn af þeim 18 starfshópum sem kveðið er á um í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, hefur verið settur á fót, að því er fram kemur í ársskýrslu innflytjendaráðs fyrir nýliðið ár. Mikilvægt er að mati ráðsins að upplýsingaflæði verði aukið á milli þeirra aðila sem að framkvæmd áætlunarinnar koma og utanumhald eflt með framvindu verkefna.

Innflytjendaráð er skipað í upphafi hvers kjörtímabils og sat fráfarandi ráð í samtals 8 mánuði. Á þessum óvenju stutta skipunartíma fjölluðu helstu verkefni ráðsins um þróunarsjóð innflytjendamála annars vegar og framkvæmdaáætlunina áðurnefndu, sem var samþykkt á Alþingi sem þingsályktun í september 2016 og gildir árin 2016 - 2019.

Áætluninni er skipt upp í fimm aðgerðarflokka sem nefnast samfélagið, fjölskyldan, menntun, vinnumarkaður og flóttafólk og fellur þessi eini vinnuhópur, sem enn hefur verið skipaður, undir þann síðasttalda. Verkefnin í þeim aðgerðarflokki snúa að flóttafólkinu sjálfu, móttöku þess, þátttöku í samfélaginu og rannsóknum og bættum upplýsingum um málaflokkinn. Er starfshópnum ætlað að leita leiða til að bæta og samræma móttöku flóttafólks eftir hælismeðferð og er það jafnframt ein af fimm aðgerðum sem lagðar eru til i þessum flokki.

Þá úthlutaði ráðið á nýliðnu ári styrkjum úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Fjölbreytt verkefni hlutu styrk og má þar nefna stjórnmálaskóla fyrir konur af erlendum uppruna, rannsókn á áhrifum nafns umsækjanda á mat á reynslu og hæfni umsækjenda, þróunarverkefni ætlað hinsegin innflytjendum o.m.fl. Jafnframt leggur ráðið til að fjárhæð sjóðsins verði hækkuð, í samræmi við fjölgun erlendra ríkisborgara á liðnum árum, í 20 m.kr. á ári.

Þess má svo geta að síðastliðið haust stóð innflytjendaráð fyrir samráðsfundi til að skapa samræðuvettvang framkvæmda- og samstarfsaðila í framkvæmdaáætluninni. Auk umfjöllunar um aðgerðir voru á fundinum kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar um innflytjendur sem gerð var í samræmi við áætlunina.

Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í innflytjendaráði er Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og þróunarsviðs. Varamaður hennar er Þórður Kristjánsson, sérfræðingur á lögfræði- og velferðarsviði.

Innflytjendarad_fjoldi-1950-2107