Yfirlit yfir stefnumál ráðherra á kjörtímabilinu hefur verið birt í ársriti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 2018. Stefnumálin eru 25 talsins og taka til allra málaflokka ráðuneytisins. Þá er í ársritinu fjallað sérstaklega um framtíðarsýn, leiðarljós og stefnumótun á vegum ráðuneytisins. Er þetta í fyrsta sinn sem ráðuneytið birtir með þessu móti heildstætt yfirlit yfir stefnumál kjörtímabilsins og er þar gagnleg nýjung á ferð fyrir áhugafólk um samgöngu- og sveitarstjórnarmál.
Yfirlit yfir stefnumál ráðherra á kjörtímabilinu hefur verið birt í ársriti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 2018. Stefnumálin eru 25 talsins og taka til allra málaflokka ráðuneytisins. Þá er í ársritinu fjallað sérstaklega um framtíðarsýn, leiðarljós og stefnumótun á vegum ráðuneytisins.
Er þetta í fyrsta sinn sem ráðuneytið birtir með þessu móti heildstætt yfirlit yfir stefnumál kjörtímabilsins og er þar gagnleg nýjung á ferð fyrir áhugafólk um samgöngu- og sveitarstjórnarmál.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir í inngangi að enda þótt einhverjum kunni að þykja samgöngumál, fjarskiptamál og sveitarstjórnar- og byggðamál vera safn ólíkra samfélagsþátta, þá séu þessir málaflokkar samofnir og ráðuneyti leggi af þeim sökum áherslu á að samþætta stórar áætlanir á vegum ráðuneytisins eða samgönguáætlun, byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun.
Í ársritinu er hinum 25 stefnumálum kjörtímabilsins skipt niður í fjóra flokka eða fjarskipti, grunnskrár og póstmál, samgöngur, byggðamál og svo sveitarstjórnarmál.
- Á meðal þeirra stefnumála sem talin eru upp undir fjarskiptum, grunnskrám og póstmálum má nefna innleiðingu 5G tækninnar í fjarskiptum, samnýtingu innviða og Ísland ljóstengt.
- Af stefnumálum sem falla undir samgöngur má nefna hraðari uppbyggingu í vegamálum og samgönguinnviðum, aukið umferðaröryggi og uppbyggingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.
- Í byggðamálum bera blómlegar byggðir hæst ásamt kortlagningu opinberrar þjónustu og mótun höfuðborgarstefnu.
- Þá er efst á blaði undir sveitarstjórnarmálum efling sveitarstjórnarstigsins á landsvísu, skýrara hlutverk landshlutasamtaka og endurskoðun reglna um fjármál sveitarstjórna.