Afkoma sveitarfélaga var óvenju góð á árinu 2018 og fá dæmi eru um viðlíka afkomu á þessari öld. Rekstrarafgangur A-hluta nam tæpum 15 milljörðum króna eða 4,5% af tekjum, samanborið við 4,2% árið 2017 og 0,1% halla að meðaltali árin 2010-2016. Rekstur A-hluta skilaði veltufé sem nam 11,3% af tekjum árið 2018 en 10,5% árið áður og 11,9% 2016.
Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur tekið saman ársreikninga sveitarfélaga fyrir árið 2018. Samantektin tekur til ársreikninga 62 af 72 sveitarfélögum landsins. Í þessum sveitarfélögum búa um 99% landsmanna.
Afkoma sveitarfélaga var óvenju góð á árinu 2018 og fá dæmi eru um viðlíka afkomu á þessari öld. Rekstrarafgangur A-hluta nam tæpum 15 milljörðum króna eða 4,5% af tekjum, samanborið við 4,2% árið 2017 og 0,1% halla að meðaltali árin 2010-2016. Rekstur A-hluta skilaði veltufé sem nam 11,3% af tekjum árið 2018 en 10,5% árið áður og 11,9% 2016.
Sveitarfélög á Suðurnesjum skiluðu rekstrarafgangi sem nam 13,8% af tekjum árið 2018 og veltufé 21,1% af tekjum. Annað var upp á teningnum á Vestfjörðum þar sem rekstrarafgangur var við núllið og veltufé nam 7% af tekjum.
Skatttekjur jukust um 8,8%, en aðrar tekjur minna og tekjur í heild um 6,1%. Útsvarstekjur hækkuðu um 8,5%, mest á Suðurnesjum og Vesturlandi (10,2%) en minnst á Norðurlandi eystra en þar var hækkunin 6,8%. Tekjur af fasteignaskatti og lóðarleigu hækkuðu um 10,3%. Mest var hækkunin í Reykjavík (12,7%) en minnst á Austur – og Vesturlandi (6,5%).
Rekstrargjöld jukust um 5%. Vegna eingreiðslu til Brúar lífeyrissjóðs á árinu 2017 sem færð var sem launatengd gjöld hækkuðu laun og tengd gjöld um aðeins 4%.
Fjárfestingar voru umfram það sem reksturinn skilaði og voru því að hluta til fjármagnaðar með lántökum. Til viðbótar luku flest sveitarfélög uppgjöri við Brú - lífeyrissjóð með lántökum á árinu og hækkuðu skuldir sem þeim nemur. Nokkur sveitarfélög, þ.á m. Reykjavíkurborg, gerðu þó upp við lífeyrissjóðinn á árinu 2017.
Skuldir og skuldbindingar A-hluta jukust um 9,3% sem hlutfall af tekjum úr 103% í 106%.
Rekstrarafgangur samstæðu (A- og B- hluta) sveitarfélaga nam röskum 6% af heildartekjum á árinu 2018 sem er talsvert lakari niðurstaða en árin tvö á undan þegar rekstrarafgangur nam um 10% af tekjum.
Veltufé frá rekstri samstæðu A- og B-hluta nam 18% af tekjum sem er heldur meira en árið áður þegar samsvarandi hlutfall var 16,6%.
Skuldir og skuldbindingar samstæðu námu 631 ma.kr. í árslok 2018 og jukust um 50 ma.kr. milli ára. Hlutfall skulda og skuldbindinga á móti tekjum samstæðu nam 148,1% sem er 4,5 prósentustigum meira en árið áður. Þetta hlutfall hefur lækkað hratt á undanförnum árum, en það var 255% árið 2010.
Í fréttabréfi Hag- og upplýsingasviðs sambandsins er gerð nánari grein fyrir ársreikningum sveitarfélaga 2018.