Ársreikningar sveitarfélaga 2020 A hluti

Niðurstöður liggja nú fyrir um ársreikninga 63 af 69 sveitarfélögum landsins fyrir árið 2020. Í þessum sveitarfélögum búa yfir 99% landsmanna.

Niðurstöður liggja nú fyrir um ársreikninga 63 af 69 sveitarfélögum landsins fyrir árið 2020. Í þessum sveitarfélögum búa yfir 99% landsmanna.

Samandregnar niðurstöður

  • Afkoma A-hluta sveitarfélaga árið 2020 var töluvert lakari en árið 2019.
  • Rekstrarafgangur var neikvæður um 8,75 ma. kr.,  samanborið við jákvæðan rekstrarafgang um 14,6 ma.kr. árið á undan. Viðsnúningur milli ára nemur því  rúmlega 23 ma.kr.
  • Tekjur A hlutans hækkuðu um 3,7% og gjöld mun meira eða um 10,1%.
  • Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 11,5%, um 13% að viðbættum breytingum lífeyrisskuldbindinga.
  • Árið 2019 námu útsvarstekjur 93% af heildar launakostnaði sveitarfélaga en árið 2020 dugðu útsvarstekjur ekki fyrir  þessum kostnaðarlið, hlutfallið var 101%.
  • Skuldir og skuldbindingar A-hluta jukust um 11,0% og hækkuðu sem hlutfall af tekjum úr 104% í 112%.
  • Rekstur A-hluta skilaði veltufé sem nam 4,9% af tekjum árið 2020 en árið áður var hlutfallið tvöfalt hærra eða 9,8%.
  • Fjárfestingar A-hluta voru rúmlega 42 ma. kr. árið 2020,  samanborið við 45 ma.kr. árið á undan. Til fjárfestinga var varið 11,5% af tekjum árið 2020 og 12,8% 2019.

Rekstrarreikningur A- hluta sveitarfélaga 2020 og 2019

Hér að neðan í töflu 1 kemur fram yfirlit um rekstur A-hluta sveitarfélaga fyrir árin 2020 og 2019.

Tafla 1. Rekstrarreikningur A-hluta 2020 og 2019

Heildartekjur sveitarfélaganna námu um 367 ma.kr. á árinu 2020, samanborið við 354 ma.kr. árið 2019 og nemur hækkun milli ára 3,7%. Að raungildi m.v. vísitölu neysluverðs hækkuðu tekjur um 0,9% en lækkuðu um 2,4% m.v. launavísitölu. Skatttekjur eru tekjur samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. útsvar, fasteignaskattur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Skatttekjur (án framlaga jöfnunarsjóðs) námu 269,5 ma.kr. og hækkuðu um 9,7 ma.kr. milli ára eða um 3,7%. Framlög úr jöfnunarsjóði hækkuðu úr 45,5 ma.kr. í 46,3 ma.kr. eða um 1,7%. Útsvarstekjur hækkuðu um 3,6,% frá 2019 til 2020. Meðalútsvarsprósenta var óbreytt milli áranna eða 14,44%. Tekjur af fasteignasköttum jukust um 4,3% sem er í takti við hækkun fasteignamats. Þjónustutekjur og aðrar tekjur námu 51,3 ma.kr. en voru 48,6 ma.kr. á árinu 2019. Hækkunin nemur 2,7 ma.kr. eða 5,6% milli ára.

Rekstrarkostnaður sveitarfélaganna (án fjármagnsliða og óreglulegra liða) nam samtals 371,2 ma.kr. á árinu 2020 og hækkaði um 34,0 ma.kr. frá fyrra ári eða 10,1%. Launagreiðslur vega þungt í rekstri sveitarfélaga. Árið 2020 námu laun og launatengd gjöld (án breytinga á lífeyrisskuldbindingum) 210,4 ma.kr. og reyndust 11,5% hærri en árið áður. Breyting lífeyrisskuldbindinga nam 11,1 ma.kr. á árinu 2020 samanborið við 7,3 ma.kr. árið á undan. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 5,8% og afskriftir um 8,3%.

Að teknu tilliti til fjármagnsliða og óreglulega liða er heildarniðurstaða af rekstri sveitarfélaganna á árinu 2020 neikvæð um 8,7 ma.kr. sem er -2,4% af tekjum.

Efnahagsreikningur A-hluta sveitarfélaga 2020 og 2019

Tafla 2 sýnir yfirlit um eignir og skuldir sveitarfélaga í lok áranna 2020 og 2019.

Heildarskuldir, bæði til langs og skamms tíma, hækkuðu um 12,6%. Námu þær 83% af tekjum 2020 en 76% 2019. Skuldbindingar hækkuðu um 6,8%, en lífeyrisskuldbindingar eru þar langfyrirferðarmestar. Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 409,9 ma.kr. í árslok 2020 samanborið við 369,2 ma.kr. í árslok 2019 og nemur hækkunin 11,0%. Samanlagt námu skuldir og skuldbindingar 112% af tekjum 2020 og 104% árið á undan.

Sjóðstreymi A-hluta sveitarfélaga 2020 og 2019

Í töflu 3 er sýnt  yfirlit yfir sjóðstreymi sveitarfélaga fyrir árin 2020 og  2019.

Tafla 3. Sjóðstreymi A-hluta 2020 og 2019.

Sjóðstreymið sýnir hvernig þeim fjármunum, sem reksturinn skilar, er ráðstafað. Veltufé frá rekstri ársins 2020 nam um 18,1 ma.kr. sem er 48% lækkun frá fyrra ári. Sem hlutfall af tekjum lækkar veltufé úr 9,8% í 4,9%.

Fjárfestingar sveitarfélaga í varanlegum rekstrarfjármunum lækkuðu milli ára og voru 42,3 ma.kr. á árinu 2020 samanborið við 45,4 ma.kr. árið á undan. Fjárfestingar sem hlutfall af tekjum reyndust 11,5% 2020 en 12,8% 2019. Sveitarfélögin tóku ný langtímalán að fjárhæð um 39,3 ma.kr. á árinu, en 23,5 ma.kr. árið áður. Afborganir langtímalána námu 16,0 ma.kr. 2020 samanborið við 20,1 ma.kr. árið 2019. Nettólántaka, þ.e. ný langtímalán að frádregnum afborgunum  langtímalána, var jákvæð um 23,3 ma.kr. 2020 en jákvæð um 3,3 ma.kr. árið áður.