Ársreikningar 2020 – Staðan erfið en skárri en óttast var

Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur tekið saman helstu þætti úr ársreikningum A-hluta tíu fjölmennustu sveitarfélaganna fyrir árið 2020. Í þessum sveitarfélögum búa fjórir af hverjum fimm landsmönnum.

 • Skatttekjur reyndust 1,8% minni en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum þessara sveitarfélaga. Áætla má að skatttekjur sveitarfélaga í heild hafi verið um 5 ma.kr. minni en fjárhagsáætlanir 2020 sögðu til um. Útkoman er engu að síður töluvert betri en óttast var um mitt síðasta ár og kemur þar til að efnahagsástand er ívið hagstæðara og ýmsar aðgerðir ríkisins hafa styrkt útsvarsstofn sveitarfélaga.
 • Hins vegar voru útgjöld vegna launa og tengdra gjalda 4,2% hærri en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir og rekstrargjöld í heild 3,5% hærri.
 • Skatttekjur hækkuðu um 4,4% frá 2019 til 2020 og heildartekjur um 4,6%. Á sama tíma hækkuðu laun og tengd gjöld um 12% og rekstrargjöld um 11%.
 • Halli var á rekstri þessara sveitarfélaga árið 2020 sem nam 4,5% af tekjum. Af tíu sveitarfélögum voru sex rekin með halla. Áætla má að rekstrarhalli sveitarfélaga í heild hafi verið um 13,5 ma.kr.
 • Í fjárhagsáætlunum þessara tíu sveitarfélaga var reiknað með að veltufé frá rekstri yrði sem svarar 7,7% af tekjum en ársreikningar sýna töluvert lakari útkomu eða sem nemur 4,7% af tekjum.
 • Þróun fjárfestinga sveitarfélaga í fyrra er áhyggjuefni, en fjárfestingar drógust saman um  7% frá 2019. Miðað við stöðuna í þjóðarbúskapnum hefði verið rétt að bæta verulega í fjárfestingar.
 • Fjárfestingar reyndust mun minni en stefnt var að í fjárhagsáætlun 2020 og munar hér um 14½%. Í krónum talið má ætla að fjárfestingar hafi verið um 7 ma.kr.  minni hjá sveitarfélögum í heild en reiknað var með í fjárhagsáætlun.
 • Skuldir og skuldbindingar reyndust mun meiri en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlunum. Þar var reiknað með skuldahlutfalli upp á 107,3% af tekjum en ársreikningar þessara sveitarfélaga sýna 117,7%  hlutfall skulda af tekjum.
 • Árið 2020 tóku þessi sveitarfélög ný langtímalán að fjárhæð um 31,2 ma.kr., greiddu 11,7 ma.kr. í afborganir, mismunur  er 19,6 ma.kr. Samsvarandi nettótala 2019 var 3,3 ma.kr.
 • Í fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna fyrir árið 2021 er reiknað með að rekstrarstaðan versni til muna. Gert er ráð fyrir að rekstrarhallinn aukist úr 4,5% í 6,9% af tekjum og veltufé verði lítillega neikvætt. Átta af þessum tíu sveitarfélögum reikna með að vera með halla á rekstrinum.
 • Þá ætla þessi sveitarfélög að auka fjárfestingar verulega og reikna með að fjárfestingar muni verða um 17% af tekjum í ár, samanborið við aðeins 12% árið 2020.  Gert er ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar muni vaxa umtalsvert og fara yfir 130% af tekjum, eða 13,5 prósentustigum umfram stöðuna 2020.

Hér að neðan má sjá myndir sem sýna nokkrar kennitölur úr áreikningum 10 stærstu sveitarfélaganna og fjárhagsáætlunum 2021. Rauðu punktarnir sýna fjárhagsáætlun 2020.