Ársfundur náttúruverndarnefnda

Ársfundur náttúruverndarnefnda var haldinn í Grindavík fimmtudaginn 10. nóvember síðastliðinn. Sextíu manns tóku þátt í fundinum en hann var bæði staðfundur og einnig streymt.

Fyrir hádegi var fjallað um hlutverk náttúruverndarnefnda og málefni þeirra. Eftir hádegishlé voru margvísleg málefni kynnt og rædd. 

Ljóst var að þátttakendur kalla eftir skýrara hlutverki náttúruverndarnefnda þó hlutverk þeirra sé skilgreint í lögum um náttúruvernd. Það þyrfti að gera það skýrara, ef til vill með reglugerð.

Hagræðing og aukið vægi getur falist í því að efna til náttúruverndarnefnda nokkurra sveitarfélaga á samliggjandi svæði, til dæmis landshlutabundið, en oft geta nefndirnar þurft að veita umsagnir um umdeildar framkvæmdir og önnur mál sem geta verið viðkvæm þegar nálægðin er mikil.

Vakin var athygli á því að faglegan stuðning geta nefndirnar sótt til náttúrustofu viðkomandi svæðis sem eiga mikið samstarf við sveitarfélögin og nærsamfélagið. Sveitarfélögin voru hvött til að nýta náttúrustofurnar. 

Náttúrustofurnar vilja jafnframt koma inn í umsagnarferli um framkvæmdir á fyrstu stigum þeirra.

Náttúrufræðistofnun Íslands fær einnig margvísleg mál til umsagna frá sveitarfélögunum og veitir ráðgjöf, bæði formlega og óformlega. Sveitarstjórnir nýta upplýsingar á heimasíðu NÍ svo sem vefsjár.

Dæmi um öflugt starf umhverfisnefnda kom fram hjá sveitarfélaginu Vogum en mikilvægt er að verkefni umhverfisnefnda séu sett inn í fjárhagsáætlun viðkomandi sveitarfélags. Einnig var sagt frá samstarfi Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar um friðlýsingu Leiruvogs og Blikastaðakróar sem gekk mjög vel en svæðið var friðlýst nú í haust.