Arnar Þór Sævarsson tekur við starfi framkvæmdastjóra

Arnar Þór Sævarsson tók í morgun við lyklum að skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga úr hendi fyrrverandi framkvæmdastjóra, Karls Björnssonar.

Arnar Þór Sævarsson tekur við lyklum að Sambandi íslenskra sveitarfélaga úr hendi Karls Björnssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra.

Síðasti formlegi vinnudagur Karls var sl. föstudag en að vinnudegi loknum efndi starfsfólk sambandsins og stjórn til kveðjuhófs honum til handa. Sama dag kom tímaritið Sveitarstjórnarmál úr prentun en þar er ferli Karls í sveitarstjórnarmálum gerð góð skil.

Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna að málum sem ég hef mikinn áhuga á og það með svona góðu og velviljuðu fólki. Það er bara gæfa að vinna með fólki sem vill samfélaginu vel og leggur sig fram um að gera það á vandaðan og faglegan hátt. Ég hef átt einstaklega gott samstarfsfólk hjá sambandinu, í sveitarstjórnum, ráðuneytum og stofnunum. Við höfum ekki alltaf verið sammála um alla hluti en mestu skiptir að gleðin hefur verið í fyrirrúmi. Nú tekur við nýtt tímabil í mínu lífi og ég er fullur tilhlökkunar að takast á við það. Langir vinnudagar í gegnum tíðina hafa sannarlega komið niður á fjölskyldulífinu en fjölskyldan hefur sýnt því umburðarlyndi og fyrir það er ég afar þakklátur. Ég hlakka mikið til að geta sinnt fjölskyldunni og áhugamálunum betur en ég hef getað hingað til.

Úr viðali við Karl Björnsson í 1. tbl. Sveitarstjórnarmála 2023