Árleg heildarlosun íslenskra bygginga metin í fyrsta sinn

Samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga úr vísindasamfélaginu, sem mátu árlega kolefnislosun íslenskra bygginga, samsvarar árleg kolefnislosun losun frá 145.000 bensínbílum.

  • Árleg kolefnislosun íslenskra bygginga samsvarar losun frá 145.000 bensínbílum, samkvæmt varfærnu mati sérfræðinga.
  • Mesta losunin eða 45% kemur frá byggingarefnum, einkum steypu.
  • Losun vegna rafmagns og hitaveitu á notkunartíma íslenskra bygginga myndar um þriðjung kolefnissporsins.

Þetta má ráða af niðurstöðum sérfræðinga úr vísindasamfélaginu sem mátu árlega kolefnislosun íslenskra bygginga í fyrsta sinn. Niðurstöðurnar hafa nú verið birtar í sérstakri skýrslu sem kom út í dag; Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030. I. hluti: Mat á kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði.

Heimslosun mannvirkjageirans umtalsverð - losun íslenskra mannvirkja óljós

Almennt er miðað við að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Upplýsingar um losun íslenskrar mannvirkjagerðar hafa hins vegar verið takmarkaðar hingað til. Nánast eini þátturinn í íslenskum byggingariðnaði sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum er losun frá vinnuvélum á byggingarsvæðum. Árið 2014 var miðað við að sú losun væri um 3% af heildarlosun Íslands. Það er þó aðeins lítill hluti af heildarlosun mannvirkja; losun bygginga á sér ekki síður stað bæði fyrir og eftir að framkvæmdum lýkur.

Heildarlosun frá ólíkum lífsskeiðum bygginga metin, óháð upprunastað

Mat á árlegri losun íslenskra bygginga var því framkvæmt með heildrænum hætti, þar sem tekið var tillit til losunar frá ólíkum lífsskeiðum bygginga og óháð því hvar hún ætti sér stað.

Myndin endurspeglar niðurstöður matsins. 45% af kolefnisspori íslenskra bygginga má rekja til innlendrar og erlendrar framleiðslu byggingarefna, 13% til flutnings byggingarefna á verkstað og vinnuvéla á verkstað, 12% til viðhalds og 30% til losunar vegna rafmagns og hitaveitu á notkunartíma bygginga.

Stærsti hluti kolefnisspors íslenskra bygginga stafar þannig frá byggingarefnum, einkum steypu. Víða erlendis er umsvifamesti losunarþátturinn fólginn í orkunotkun við rekstur bygginga.

Samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs: Markmið um minni losun og áhrifaríkar aðgerðir

Mat á kolefnislosun íslenskra bygginga er liður í samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð. Verkefnið kallast Byggjum grænni framtíð, hófst formlega í september 2021 og á rót sína að rekja til aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Verkefnastjórn er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en í verkefnahópnum sitja einnig fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Grænni byggð, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðinni, Umhverfisstofnun og félagsmálaráðuneytinu.

Niðurstöðurnar gera byggingariðnaðinum og stjórnvöldum kleift að setja sameiginleg markmið um vistvænni mannvirkjagerð og skilgreina áhrifaríkar aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Sú vinna er þegar hafin á vegum samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð og er aðgerðaáætlunar að vænta í mars 2022. Nú þegar hafa hátt í 200 sérfræðingar hvaðanæva úr íslenska mannvirkjageiranum komið að þeirri vinnu. Útlit er fyrir að skilgreindar aðgerðir verði um 60 talsins, en 12 af þeim eru þegar komnar á framkvæmdastig.