Ályktun um aðgerðir til að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum í sveitarstjórnarstjórnum

Vegna Covid féllu niður í fyrsta sinn í sögu Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins bæði vor- og haustþing 2020. Stjórnskipunarnefnd þingsins, sem er skipuð formönnum sendinefnda, hefur í staðinn komið saman nokkrum sinnum til að afgreiða mál þingsins.

Á fundi stjórskipunarnefndar í desember var samþykkt ályktun um aðgerðir til að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum í sveitarstjórnum. Tilefni ályktunarinnar er að konur í stjórnmálum verða í æ meira mæli fyrir óviðurkvæmilegum ummælum og árásum bæði frá íbúum og pólitískum andstæðingum, sérstaklega á samfélagsmiðlum. 

Í ályktuninni eru sveitar- og svæðisstjórnir hvattar til að taka afdráttarlausa afstöðu gegn þessari þróun og setja eða endurskoða hegðunarreglur til að setja skýrt bann við slíkri hegðun og ummælum á vettvangi sveitarstjórna. Sérstaklega er hvatt til árvekni á kosningatímum. Enn fremur eru ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins hvattar til að veita sveitar- og svæðisstjórnum faglegan og fjárhagslegan stuðning í þessari baráttu í samræmi við jafnréttisstefnu Evrópuráðsins 2018-2023.