Ályktun Evrópusamtaka sveitarfélaga um félagsleg réttindi íbúa Evrópu

Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2020 byggir á sex forgangsmálum. Eitt þeirra fjallar um „Efnahagskerfi sem sinnir þörfum almennings“ en þar skipa félagsleg réttindi stóran sess. Sérfræðinganefnd á vegum Evrópusamtaka sveitarfélaga, sem fjallar um málefni sem snúa að sveitarfélögum sem vinnuveitendur, fundaði um málið 20. október 2020.

Á fundinum var samþykkt ályktun sem send verður framkvæmdastjórn ESB. Í ályktuninni er afstaða samtakanna reifuð og þar kemur fram að CEMR styðji þau grunnvallarréttindi sem ESB vilji tryggja íbúum álfunnar, en jafnframt er áréttað að sumar af þeim tillögum sem framkvæmdastjórn ESB hefur kynnt til sögunar eigi að vera leiðbeinandi en ekki lagalega bindandi.

Sem dæmi má nefna áform ESB um lágmarkslaun, en tillögur framkvæmdastjórnar ESB hafa valdið töluverðum áhyggjum meðal aðildarsamtaka CEMR og þá ekki síst meðal Norðurlandaþjóðanna. Það er ákveðin hætta á því að áform ESB kunni að hafa neikvæð áhrif á norræna kjarasamningamódelið. Tillögur framkvæmdastjórnar ESB eru í umsagnarferli og í ályktun, sem CEMR sendi framkvæmdastjórninni fyrr á þessu ári, er lögð áhersla á að það sé ekki á valdsviði ESB að ákvarða lágmarkslaun í Evrópu. Í framhaldi af því var haldinn fundur með sérfræðinganefnd CEMR og framkvæmdastjórn ESB. Á fundinum lögðu fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB áherslu á að það sé ekki ætlun ESB að velta norræna kjarasamningsmódelinu úr sessi eða lögfesta ákveðinn lágmarkslaun í Evrópu.

Víkjum þá aftur að áformum ESB í tengslum við „Efnahagskerfi sem sinnir þörfum almennings“ og þeim félagslegu réttindum sem þar eru til umfjöllunar og snerta sveitarfélög sem vinnuveitendur. Framkvæmdastjórn ESB skiptir þessu niður í þrjá meginflokka:

  1. Jöfn tækifæri og réttur til atvinnu;
  2. Aðbúnaður vinnandi fólks;
  3. Félagsleg réttindi og jafn réttur til þátttöku.

Í ályktun CEMR er lögð áhersla á að ESB horfi sérstaklega til eftirfarandi atriða þegar kemur að þessari vinnu. Í fyrsta lagi að ESB leggi áherslu á menntun og starfsþjálfun þannig að evrópsk samfélög séu vel í stakk búin til að bregðast við breyttri samsetningu vinnuafls, stafrænu byltingunni og afleiðingum Covid-19. Í þessu tilliti er ekki síst mikilvægt að horft sé til atvinnuþátttöku ungs fólks. Í öðru lagi að hugað sé að stöðu kvenna á vinnumarkaði, en Covid-19 hefur enn frekar afhjúpað brotalamir í tengslum við atvinnuöryggi, kjör og aðbúnað kvenna. Í þriðja lagi að hugað sé að stöðu viðkvæmra hópa á vinnumarkaði, þar með talið eldri borgara, innflytjendur og fólks með sérþarfir.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundinum voru Ellisif Tinna Víðisdóttir lögfræðingur og Óttar F. Gíslason forstöðumaður Brussel skrifstofu.