Nú standa yfir alþjóðlegar samningaviðræður um plast og plastmengun, þar sem stefnt er að því að ná samkomulagi í árslok 2024.
Þetta eru umfangsmestu samningaviðræður um umhverfismál á alþjóðavísu frá því að Parísarsamningurinn um loftslagsmál var samþykktur árið 2015. Þær endurspegla áhyggjur vegna mengunar af völdum plastúrgangs og örplasts, sem fer sívaxandi.
Viðræðurnar hófust í árslok 2022 og nýlega lauk 4. samningafundi, sem haldinn var í Ottawa í Kanada. Óvíst er hvort samkomulag náist í höfn fyrir árslok, þar sem nokkuð ber í milli hjá samningsaðilum. Helsta ágreiningsefnið er hvort væntanlegur samningur eigi að ná til alls lífsferils plasts, þ.á m. framleiðslu og hönnunar, eða einblína eigi á að stöðva losun plasts í umhverfið.
Ísland í hópi metnaðarfullra ríkja
Ísland hefur sett sig í hóp metnaðarfullra ríkja í þessum viðræðum, sem vilja taka á öllum lífsferli plasts, þ.á m. að draga úr notkun plasts og setja skilyrði varðandi framleiðslu, endurvinnsluhæfni og hættuleg íblöndunarefni. Fyrri samningar sem taka á mengun einblína flestir á lokakaflann í lífsferlinum og losun í umhverfið en síður á framleiðslu og neyslu.
Ísland hefur lagt til alþjóðlegrar umræðu m.a. með því að standa fyrir tveimur vel heppnuðum alþjóðlegum ráðstefnum um plastmengun á Norðurslóðum. Síðari ráðstefnan var haldin í Hörpu í desember 2023 og kynntu fulltrúar Íslands í samningaviðræðunum niðurstöður hennar á sérstökum viðburði á samningafundinum í Ottawa.
Það mun taka tíma að landa hnattrænum plastsamningi og enn lengri tíma þar til áhrifa hans fer að gæta hér á landi. Ísland er að auki í þeim heimshluta þar sem regluverk er hvað strangast og ástand mála er betra en t.d. í mörgum þróunarríkjum, þar sem meðhöndlun úrgangs er alls óviðunandi og plastúrgangur flýtur í stríðum straumum eftir ám og út á haf; en nýjum samningi er ekki síst ætlað að bæta ástandið þar sem svo háttar til. Það er þó full ástæða til að fylgjast með umræðunni á alþjóðavísu og móta frekar sýn og stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi plastmengun. Meðal annars hefur umræða um veiðarfæri og drauganet verið fyrirferðarmikil í viðræðunum og ástæða fyrir sjávarútvegsþjóð eins og Íslendinga að fylgjast grannt með henni.
Til mikils að vinna í ábyrgri meðhöndlun úrgangs
Plastúrgangur finnst nær alls staðar í íslenskum fjörum, víða á hafsbotni og í mögum sjófugla. Örplast finnst í kræklingum og víðar. Plastúrgangur getur drepið dýr og spillt vistkerfum og örplast er ógn við heilsu manna, þar sem smæstu agnirnar geta borist inn í blóðrás og líffæri fólks. Á hverju ári berast um 10 milljón tonn af plastúrgangi í hafið og það magn mun halda áfram að vaxa að óbreyttu. Um helmingur af plastframleiðslu fer í einnota vörur, en plast getur enst í margar aldir í umhverfinu sem rusl og síðan örplast – staðreyndir sem fara ekki vel saman. Innan við 10% af plastúrgangi er endurunninn á heimsvísu og stærstur hluti aðeins einu sinni; stór hluti plastvara hentar illa til endurvinnslu. Það er verðugt og risavaxið verkefni að snúa af leið einnota plasts og síaukinnar framleiðslu og mengunar.
Ísland hefur mikla hagsmuni af hreinu umhverfi og að stöðva plastmengun. Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki, ekki síst við að tryggja ábyrga meðhöndlun úrgangs, hvort tveggja sem stjórnvald og með aðkomu að Úrvinnslusjóði, en einnig hvað varðar hreinsun stranda og annars nærumhverfis, fráveituhreinsun svo dæmi séu tekin.