Alþjóðlegur dagur kennara er í dag

Í dag er alþjóðlegur dagur menntunar. Án kennara getur menntun ekki átt sér stað og varð skortur á kennurum til þess að stjórnvöld settu af stað fimm ára átaksverkefni um nýliðun kennara vorið 2019. Útskrifuðum kennurum hefur fjölgað umtalsvert frá því að átaksverkefnið hófst.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að vel hafi gengið að fjölga kennurum í kjölfar átaksverkefnisins. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar frá þeim háskólum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi. Það er 160% aukning miðað við meðaltal áranna 2015–2019.

Vorið 2019 var sett af stað 5 ára átaksverkefni stjórnvalda um nýliðun kennara. Markmið þess er að fjölga kennurum á öllum skólastigum og auka gæði náms og kennslu í íslensku skólakerfi með farsæld nemenda að leiðarljósi. Frá því að átaksverkefnið hófst fyrir rúmum þremur árum hefur rík áhersla verið lögð á að fjölga þeim sem velja kennaranám og auka skilvirkni námsins svo kennaranemar útskrifist á tilsettum tíma. Á þeim tíma hefur aðsókn í kennaranám farið fram úr björtustu vonum og brautskráningum fjölgað samhliða.

Launað starfsnám

Einn liður í átaki stjórnvalda til að fjölga kennurum er 50% launað starfsnám kennaranema á lokaári. Aðgerðin tók gildi haustið 2019 þegar kennaranemum gafst kostur á að velja 50% launað starfsnám við leik- eða grunnskóla sem hluta af lokaári í námi. Markmið launaðs starfsnáms er einkum að byggja upp þekkingu og hæfni kennaranema til að takast á við áskoranir kennarastarfsins að námi loknu með markvissum stuðningi reyndra leiðsagnarkennara sem dregið getur úr brotthvarfi þeirra fyrstu árin í starfi.

Fjöldi starfandi leiðbeinenda (sem ekki hafa kennsluréttindi) hefur dregist saman á samhliða auknum fjölda útskrifaðra kennara en sá mælikvarði gefur til kynna hvernig gengur að ráða í lausar kennarastöður. Þróunin hefur því verið í samræmi við markmið stjórnvalda en með þessum hætti er tryggt að við skóla landsins starfi kennarar með djúpa þekkingu á sínu fagi og góða reynslu sem styður við gæði náms og kennslu.