13. júl. 2015

Alþingi samþykkti lög um Menntamálastofnun

Þann 1. júlí sl. samþykkti Alþingi lög um Menntamálastofnun. Menntamálastofnun mun sinna þeim verkefnum sem Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun hafa sinnt auk þess sem stjórnsýsluverkefni verða flutt frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til hennar.

"Stofnuninni er ætlað víðtækt hlutverk en það felst fyrst og fremst í því að stuðla að því að íslenskir nemendur fái notið bestu mögulegrar menntunar og styðja við aukin gæði og framfarir í menntamálum...Með frumvarpi þessu er leitast við að skerpa og styrkja stjórnsýslu menntamála, gæðastarf og þjónustu við skóla", sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars þegar hann mælti fyrir frumvarpi til laga um Menntamálastofnun. Frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust.