Almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi

„Stjórnvöldum ber skylda til að haga málum þannig að almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi við uppbyggingu og rekstur innviða sem eiga að tryggja öryggi og jafna búsetuskilyrði allra landsmanna.“

„Stjórnvöldum ber skylda til að haga málum þannig að almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi við uppbyggingu og rekstur innviða sem eiga að tryggja öryggi og jafna búsetuskilyrði allra landsmanna.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun sem samþykkt var í stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var í dag, föstudaginn 13. desember. Einnig þakkaði stjórnin björgunaraðilum, starfsmönnum veitufyrirtækja og öðrum sem tekið hafa þátt í viðbrögðum og afleiðingum óveðursins sem dunið hafa undanfarna daga fyrir vel unnin störf.

Ályktun stjórnar sambandsins 13. desember 2019.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sendir stjórnendum sveitarfélaga og íbúum þeirra sem nú glíma við afleiðingar óveðursins kveðju, um leið og hún þakkar björgunaraðilum, starfsmönnum veitufyrirtækja og öðrum sem tekið hafa þátt í viðbrögðum við afleiðingum þess óveðurs sem dunið hefur á landinu undanfarna daga. Stjórnin hvetur ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Landsnet og veitufyrirtæki til að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja raforkuöryggi um allt land sem allra fyrst. Það er með öllu óásættanlegt að stór hluti íbúa landsbyggðarinnar búi við slíkt óöryggi sem raunin er. Stjórnvöldum ber skylda til að haga málum þannig að almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi við uppbyggingu og rekstur innviða sem eiga að tryggja öryggi og jafna búsetuskilyrði allra landsmanna.