Hlutfall umbúða í blönduðum úrgangi kann að minnka ef tillögur Evrópuráðsins ná fram að ganga. Óendurvinnanlegar umbúðir eru til dæmis mikið samsettar umbúðir úr ólíkum hráefnum sem ekki er hægt að taka í sundur og vissar umbúðir úr lífplasti sem brotna ekki niður við hefðbundna meðhöndlun.
190 kg af umbúðum á hvern íbúa Evrópu á ári
Íslensk sveitarfélög hafa síðustu ár unnið að því að innleiða breytt verklag við sorphirðu til að koma til móts við viðamiklar og auknar skyldur sem lagðar hafa verið á sveitarfélög um úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis í lögum nr. 103/2021. Þau þurfa m.a. að sjái til þess að pappír og pappa, plasti, lífúrgangi og blönduðum úrgangi sé safnaði á lóðum íbúa og lögaðila í þéttbýli. Þessi aukna flokkun og skil til endurnotkunar og endurvinnslu gerir það að verkum að blandaður úrgangur minnkar. Umbúðir utan um vörur eru þó ekki allar endurvinnanlegar og þurfa áfram að flokkast sem blandaður úrgangur.
Það kann þó að verða breyting á því þar sem Evrópuráðið náði nýlega samkomulagi um breytingar á reglugerð um umbúðir og umbúðaúrgang. Markmið breytinganna er að takast á við aukningu á umbúðaúrgangi sem myndast innan ESB en talið er að hver Evrópubúi kasti frá sér 190 kg af umbúðum á ári að jafnaði. Á síðasta áratug hefur magn umbúða í úrgangi aukist um 25%. Tillögurnar ná yfir allar umbúðir óháð því í hvaða tilgangi þær eru gerðar, s.s. til heimilisnota eða vegna iðnaðarvara.
Áhersla á flokkun og endurvinnslu
Með breytingunum er gerð atlaga að því að samræma kröfur til umbúða sem settar eru á markað þannig að auðveldara verði að endurvinna þær. Frá 2035 eiga allar umbúðir sem settar eru á markað að vera endurvinnanlegar og krafa gerð um að hægt sé að safna þeim sérstaklega. Komið hefur í ljós að eftirspurn eftir endurunnu plasti hefur ekki verið sem skyldi og því verður sett krafa um lágmarks innihald endurunnins hráefnis í plastumbúðum. Einnig er stefnt að því að setja kröfur um niðurbrots eiginleika (til jarðgerðar) sumra vara og umbúða á markaði.
Gerðar verða auknar kröfur til flokkunarmerkinga umbúða þannig að þar verði upplýsingar um innihald og flokkun til endurvinnslu eftir notkun. Þau lönd sem þegar hafa innleitt flokkunarmerkingar fá svigrúm til að nota slík kerfi áfram. Á Íslandi hafa verið innleiddar samræmdar norrænar merkingar og er Samband íslenskra sveitarfélaga aðili að norræna samstarfinu EUPicto sem á merkingarnar. Fyrirtæki hérlendis eru þegar byrjuð að merkja vörur sínar með samnorrænu merkingunum og auðvelda þar með flokkun þeirra. Óljóst er því hversu mikil áhrif auknar kröfur um flokkunarmerkingar á umbúðum munu hafa hérlendis nái tillögur Evrópuráðsins fram að ganga.
Innleiddar kröfur um lágmörkun umbúða
Tillögurnar fela jafnframt í sér að settar verða kröfur um að draga úr magni umbúða sem settar eru á markað og koma þar með í veg fyrir óþarfa sóun. Markmið um endurnotanlegar umbúðir verða sett og auknar kröfur um take-away ílát fyrir mat og drykk. Vissar einnota umbúðir utan um ávexti og grænmeti og smáumbúðir, s.s. utan um sjampó, verða óheimilar.
Hvert aðildarríki verður skylt að draga úr umbúðum um 5% fyrir 2030, 10% fyrir 2035, og 15% fyrir 2040. Aðildarríkin munu þurfa að safna 90% allra einnota drykkjarvöruumbúða úr plasti og málmi fyrir árið 2029. Skylda verður að koma upp skilakerfi fyrir slíkar umbúðir ef markmiðinu er ekki náð. Þessar tillögur verða unnar áfram á vettvangi Evrópuþingsins. Lagt er upp með að ríkin hafi 18 mánuði til að innleiða þessar nýju kröfur eftir að þær hafa verið samþykktar.