Álagning fasteignaskatta lækkar

Tekjur af fasteignasköttum svara til um 13-15% af heildartekjum sveitarfélaga og eru fasteignaskattar næst mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga – á eftir útsvarstekjum. Fasteignaskattar eru lagðir á í þremur flokkum. Í A-flokki eru íbúðarhúsnæði, í B-flokki fasteignir hins opinbera og í C-flokki atvinnuhúsnæði.

Lög kveða á um hámarksálagningu og er hún 0,5% af fasteignamati í A-flokki og 1,32% í C-flokki, með heimild til hækkunar  upp í 1,65%. Álagning á eignir í C-flokki er fastákveðin 1,32%.  Í þessu minnisblaði er fjallað um A- og C-flokk.

Stofn fasteignamats íbúðarhúsnæðis (A-flokkur) í tuttugu stærstu sveitarfélögunum hækkaði í heild um 2,2% frá 2020 til 2021. Samsvarandi hækkun stofns atvinnuhúsnæðis í C-flokki nam 1,8%. Lögum skv. skal fasteignamt endurspegla gangverð húsnæðis í febrúar árinu áður en matið tekur gildi. Fasteignamat 2021 miðast þannig við gangverð húsnæðis í febrúar 2020. Breyting stofns fasteignamats frá 2020 til 2021 tekur annars vegar til hækkunar fasteignamats og hins vegar til fjölgunar eigna á milli ára. Margvísleg gjöld, s.s. vatns- og fráveitugjald og lóðaleiga, eru byggð á fasteignamati.

Hag – og upplýsingasvið hefur kannað álagningarprósentu, A- og C, í tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins árið 2021 og breytingu frá fyrra ári. Niðurstöður eru sýndar í meðfylgjandi töflu.

Fasteignir í þessum sveitarfélögum er um 90% af fasteignum á landinu. Ellefu sveitarfélaganna lækkuðu álagningarprósentu ýmist í A  eða C flokki eða báðum flokkum. Álagning á A-flokk hækkaði í einu sveitarfélagi en þar lækkað fasteignamat milli ára.

Vegið meðaltal álagningarprósentu í A-flokki var 0,228% 2020 og 0,227% 2021, um er að ræða lækkun um 0,44%. Tekjur þessara sveitarfélaga af fasteignaskatti í A-flokki hækka um 1,75% frá 2020 til 2021. Til samanburðar má nefna að Hagstofa spáir 2,7% hækkun neysluverðsvísitölu frá 2020 til 2021 og raunlækkun er því 0,9%.

Meiri lækkun varð á álagningarprósentu í C-flokki. Vegið meðaltal lækkaði úr 1,593% í 1,561% sem er lækkun um 2,03%.  Tekjur þessara sveitarfélaga af fasteignaskatti í C-flokki lækka um 0,3% frá 2020 til 2021 og raunlækkun er því 2,9%.

Samantekið munu tekjur þessara sveitarfélaga af fasteignasköttum í A og C-flokki hækka um 0,4% sem er raunlækkun um 2,2%.

Stjórn sambandsins samþykkti í mars á síðasta ári viðspyrnuáætlun fyrir atvinnulífið sem það beindi til sveitarfélaga með ósk um að þau hrintu í framkvæmd. Í áætluninni var lögð rík áhersla á að við ákvörðun álagingarprósentu fasteignaskatta árið 2021 verði horft til áætlaðra verðlagsbreytinga milli ára en ekki hækkun fasteignamats. Ánægjulegt er að sveitarfélögin hafa orðið við þessum tilmælum og leggja þannig sín lóð á vogarskál viðspyrnu fyrir atvinnulíf og heimili.