30. okt. 2019

Akureyrarbær vinnur Hæstaréttarmál gegn ASÍ f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Einingar-Iðju

Í dag staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Félagsdóms um frávísun aðal- og varakröfu Akureyrarbæjar á hendur Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Einingar-Iðju. 

Staðfest var niðurstaða Félagsdóms um frávísun aðal- og varakröfu ASÍ á hendur Akureyrarbæ frá dómi, auk þess sem þrautavarakröfu ASÍ var jafnframt vísað frá dómi.

Vísað var til þess að ASÍ leitaði með aðal- og varakröfu sinni eftir að fá viðurkennt að Akureyrarbæ bæri að efna lífeyrisskuldbindingar gagnvart félagsmönnum Einingar-Iðju. Hæstiréttur taldi að kröfur ASÍ beindust ekki að því að fá úrlausn ágreinings um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá taldi Hæstiréttur einnig að þrautavarakrafa ASÍ félli heldur ekki undir áskilnað fyrrgreinds lagaákvæðis þar sem sú yfirlýsing sem hún byggði á var ekki talin fela í sér skuldbindingu þess efnis að geta talist hluti kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur. Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Einingar-Iðju var dæmt til að greiða Akureyrarbæ 500.000 kr. í kærumálskostnað.

Hér má sjá dóm Hæstaréttar í heild.