Ákall dagsins er sjálfbærni

„Ákall dagsins er sjálfbærni. Hvert sem við förum og hvað sem við gerum þurfum við alltaf að hafa þetta í huga.“

„Ákall dagsins er sjálfbærni. Hvert sem við förum og hvað sem við gerum þurfum við alltaf að hafa þetta í huga. Það hafa verið sett fram sjálfbærnimarkið og ríkisstjórnin leitast við að vinna eftir þeim,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra. Hann sagði loftlags-og umhverfismál mál málanna og ríkisstjórnin myndi ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Hann vísaði meðal annars til aðgerðaráætlunar sem kynnt var í september 2018 sem hefur að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að Íslendingar geti staðið við Parísarsamninginn. Megin áherslurnar væru tvær að auka kolefnisbindingu með ýmsum hætti og að byggja upp aukið innviði v. raforkuvæðingar í samgöngum. Í þetta hafi verið lagðir 1,5 milljarðar. Hann sagði víða tækifæri til að gera betur í þessum málum en sagðist binda vonir við að samráðsvettvang ríkis og sveitarfélaga þótt það samráð mætti vera bæði betra og þéttara.

Ráðherra sagði að fyrirhuguð sameining sveitarfélaga væri veigamikill þáttur í að taka á þessum málum því tryggja þyrfti sveitarfélögin sem öflugan og sjálfbæran vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Hann sagði að sameiningin sem studd er af sambandi sveitarfélaga gæti leitt til helmingsfækkunar sveitarfélaga og að fjárhagslegur ávinningur gæti numið 3,5 til 5 milljörðum króna. Þennan ávinning mætti til dæmis nota til að bæta þjónustuna og greiða niður skuldir. Hann sagðist vissulega hafa heyrt áhyggjuraddir sem óttast að með stækkun sveitarfélaganna færðist allt vald til þeirra stærri en minni sveitarfélögin yrðu út undan. Ráðherra sagði að það væri skylda sveitarstjórnanna að sjá til þess að valdinu verði dreift og að haft verði samráð við íbúa. Sigurður benti á að í þeirri sameiningu sem nú væri unnið að á Austurlandi væru áhugaverðar leiðir ræddar til að tryggja áframhaldandi áhrif minni sveitarfélaga. Hvatti hann sveitarstjórnarmenn að kynna sér þær leiðir sem þar væri verið að fara.

Sigurður Ingi spurði hvort Jöfnunarsjóður sveitarfélaga væri í raun og veru jöfnunarsjóður. Hann sagði þessa spurningu óneitanlega koma upp þegar menn horfðu á eftir fúlgum fjár renna til sveitarfélaga sem hefðu tekjur langt umfram það sem gengur og gerðist á landsvísu. Með þessu var ráðherrann að vísa til dóms Hæstaréttar sem felur í sér að ríkið þarf að greiða fimm sveitarfélögum um 1300 milljóna króna bætur vegna ágreinings um flutning verkefna frá ríkinu til sveitarfélagann. Ráðherra sagði að hann hefði nú þegar lagt fram til kynningar frumvarp til að styrkja stöðu Jöfnunarsjóðs og koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig. Hins vegar væri mikilvægt að menn væru sammála um hlutverk Jöfnunarsjóðs ef ekki mætti alveg eins leggja hann niður og finna einhverja aðra leið til að dreifa styrk til sveitarfélaganna.