16. júl. 2010

Námskeið um lýðræði í sveitarfélögunum

  • SIS_Lydraedi_mannrettindi_760x640

Samband íslenskra sveitarfélaga hyggst standa fyrir námskeiði um lýðræði í sveitarfélögum 6. september nk. Leiðbeinendur verða tveir danskir ráðgjafar sem hafa víðtæka reynslu af ráðgjöf í lýðræðismálum fyrir dönsk sveitarfélög. Þau eru Anne Torzen, blaðamaður, ráðgjafi og stjórnandi Miðstöðvar um íbúasamráð og Søren Frilander ráðgjafi hjá danska sveitarfélagasambandinu KL. Námskeiðið verður haldið á Reykjavíkursvæðinu en nánari staðsetning verður auglýst síðar. Það verður haldið á ensku.

Námskeiðið verður tvískipt. Fyrri hluta dagsins verður boðið upp á námskeið fyrir starfsmenn sveitarfélaga með það fyrir augum að þeir fái þjálfun í að vinna að lýðræðisverkefnum innan sinna sveitarfélaga. Síðdegis verður námskeið, sniðið að þörfum kjörinna fulltrúa, sem hafa áhuga á að vinna að stefnumótun og nýjungum í lýðræðismálum innan sinna sveitarfélaga. Markmiðið er að gera sveitarfélög í stakk búin til að starfa markvisst með íbúum. Farið verður yfir reynsluna frá Danmörku en þar hefur lýðræði í sveitarfélögum verið í brennidepli eftir veigamiklar stjórnkerfisbreytingar á sveitarstjórnarstiginu. Fjallað verður m.a. um hin fimm stóru úrlausnarefni kjörinna fulltrúa, þ.e. að finna tíma fyrir hið pólitíska starf; samskiptin við íbúa; við fjölmiðla og hagsmunasamtök; samspilið við önnur sveitarfélög og hið pólitíska leiðtogahlutverk.

Námskeiðið verður haldið á þeirri forsendu að það takist að tryggja lágmarksþátttöku þannig að námskeiðið standi undir sér. Gera má ráð fyrir að ef 20 manns taki þátt þá verði námskeiðsgjöld um 30 þús.kr. fyrir hvern þátttakanda og lægri ef fleiri taka þátt. Vinsamlegast skráið þátttöku með tölvupósti til Önnu Guðrúnar Björnsdóttur, anna@samband.is, fyrir 15. ágúst nk.

Að lokum er rétt að minna á að sambandið hyggst standa fyrir námskeiðum fyrir kjörna fulltrúa í nóvember þar sem áhersla verður lögð á fjármálastjórnun og vinnuveitandahlutverk sveitarstjórna. Í janúar og febrúar er síðan stefnt að námskeiðum þar sem áherslan verður á sveitarstjórnarmanninn sjálfan, hlutverk hans og ábyrgð.