19. maí 2010

Skýrsla um VSK-umhverfi sveitarfélaga

  • SIS_Fjarmal_sveitarfel_760x640

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 7. maí 2010 var lögð fram greinargerð til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og endurskoðunarnefndar um tekjustofna sveitarfélaga um vsk-umhverfi sveitarfélaganna. Greinargerðin er unnin af lögfræði- og velferðarsviði sambandsins í samstarfi við skattasvið KPMG á Íslandi.

Í áfangaskýrslu tekjustofnanefndar, dags. 21. desember 2009 segir í 10. lið um endurgreiðslu virðisaukaskatts:

Ýmis starfsemi sveitarfélaganna er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þá má nefna félagslega þjónustu, rekstur leikskóla, grunnskóla, skólamötuneyti og íþróttastarfsemi. Þá er í 42. gr. laganna kveðið á um endurgreiðslu sveitarfélaga á virðisaukaskatti sem þau hafa greitt við kaup á vöru eða þjónustu. Nánar er skilgreint hvaða vörur og þjónusta er um að ræða, en dæmi eru sorphreinsun, snjómokstur og hálkueyðing, björgunar- og öryggisstörf, og þjónusta ýmissa sérfræðinga.

Sveitarfélögin hafa óskað eftir því að undanþáguheimildum verði fjölgað og nái til fleiri flokka en tilgreindir eru í lögunum. Nefndin er sammála því að þau sjónarmið geti að vissu marki átt rétt á sér, einkum þegar um er að ræða verkefni sem eru hluti af almannaþjónustu sveitarfélaga og ekki í samkeppnisumhverfi. Má t.d. nefna sjónarmið um aukna endurgreiðslu vörukaupa slökkviliða, auk einföldunar á fyrirkomulagi, fjölgun endurgreiðsluflokka m.t.t. matarkostnaðar í leik- og grunnskólum, endurgreiðslu virðisaukaskatts af refa- og minkaveiðum ofl. Til viðbótar má nefna að verulega hefur dregið úr stuðningi ríkisins við fráveituframkvæmdir, sem hefur numið allt að 20% endurgreiðslu af kostnaði (nær vsk.), en ekkert samkomulag er um framhald þess stuðnings.

Ofangreindar aðgerðir hefðu án efa jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélaganna.

TILLAGA:

Lagt er til að sveitarfélögin setji fram lista og umfang yfir þau viðfangsefni sem eðlilegt er að þeirra mati að verði undanþegin virðisaukaskatti og að í framhaldinu fari fram viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um að breyta lögum um virðisaukaskatt. Frumvarp og reglugerðarbreytingar verði lagðar fram eins fljótt og hægt er á nýju ári sem byggi á samkomulagi aðila.

Í greinargerð sambandsins og KPMG eru settar fram fjórar tillögur til breytinga á vsk-umhverfi sveitarfélaganna:

a)   Sveitarfélögin fái 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum.

b)   Sveitarfélögin fái 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna stofnkostnaðar slökkvi- og björgunarbúnaðar.

c)   Könnuð verði tilefni til breytinga á álagningu og innheimtu virðisaukaskatts af aðföngum til rekstrar almenningssamgangna sveitarfélaga.

d)   Gengið verði til gagngerrar endurskoðunar á skattframkvæmd hvað varðar meðferð endurgreiðslubeiðna sveitarfélaga.

Í greinargerðinni kemur fram að ærið tilefni er til þess að huga að úrbótum á þeim lagareglum sem gilda um VSK-skil sveitarfélaga. Bent er á vinna stendur yfir við endurskoðun á lykilþáttum í fjárhags­málefnum sveitarstjórnarstigsins, þ.e. um tekjustofna og jöfnun milli sveitarfélaga. Eðlilegt verður að telja að regluramminn um virðisaukaskattinn sé þar sérstaklega til skoðunar.  Reglurnar eru að stofni til meira en 20 ára gamlar og því komin mikil reynsla á framkvæmdina sem vert er að skoða og draga lærdóm af. Fram hefur komið í opinberri umræðu að íslenskar virðisaukaskattsreglur hafi um árabil lítið sem ekkert þróast. Gagnrýnt er að framkvæmdin styðjist of mikið við ólögfestar reglur.

Réttarþróun innan Evrópusambandsins kallar einnig á að fyrirkomulagið sé skoðað, og þá einkum í ljósi þess að Ísland hefur sótt um aðild að sambandinu. Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um aðildarumsóknina er sérstaklega vikið að virðisaukaskatti og talið að undanþágur og lækkunarheimildir þurfi að endurskoða í íslenskri löggjöf.[1] Kemur það ekki síst við sveitarfélögin að það verði gert.

Þá hvetur það einnig til endurskoðunar nú, að fyrir dyrum stendur að færa yfir til sveitarfélaganna margvíslega þjónustu sem ríkið hefur veitt. Þannig er miðað við að þjónusta við fatlaða færist yfir um komandi áramót og ráðgert er að þjónusta við aldraða fylgi fljótlega í kjölfarið. Afar mikilvægt er að skýr ákvæði séu til staðar um skattskyldu starfsemi sem rekin er í þessum málaflokkum.

Að lokum gefur það sjálfstætt, en um leið brýnt tilefni til aðgerða, að um þessar mundir er unnið að sameiningu embætta og annarri samhæfingu í skattheimtu ríkisins. Sambandi íslenskra sveitarfélaga og KPMG, sem sinnir endurskoðunarstörfum fyrir mörg sveitarfélög, berast reglulega vísbendingar um misvísandi skattframkvæmd gagnvart sveitarfélögunum, þar sem m.a. reynir á ólíka túlkun. Ljóst er að kjörið tækifæri gefst nú til samræmingar og er lagt til að því verði fylgt eftir með breytingum á lögum og reglugerðum um virðisaukaskattsumhverfi sveitarfélaganna.


Stjórnin samþykkti þann 7. maí að vísa greinargerðinni til umfjöllunar í tekjustofnanefnd og jafnframt að senda hana til allra sveitarfélaga til upplýsingar.


[1] Greiningarskýrsla framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins og Ráðsins, Brussel, 24. febrúar 2010, SEC(2010) 153, bls. 72. Sjá: http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/ESB-greiningarskyrsla.pdf.