11. maí 2010

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin

  • kosningar

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna sveitarstjórnarkosninganna þann 29. maí nk. hófst hjá sýslumönnum um land allt þann 6. apríl sl. og stendur til kjördags. Frá og með mánudeginum 10. maí, fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á vegum sýslumannsembætta um land allt. Í Reykjavík fer atkvæðagreiðslan fram í Laugardalshöll og er opið þar alla daga frá kl. 10:00-22:00.  Lokað verður á uppstigningardag, þann 13. maí nk., og hvítasunnudag þann 23. maí nk. Erlendis fer kjörfundur fram á skrifstofum sendiráða eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða á skrifstofu kjörræðismanns samkvæt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins.

Kjörstaðir

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

  • Hjá sýslumönnum um land allt eða á öðrum stöðum sem hann ákveður í umdæmi hans.
  • Erlendis á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða á skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.
  • Á sjúkrahúsum, í fangelsum og á dvalar- og vistheimilum. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra og stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar.
  • Heimahúsi, kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag. Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram á þann hátt sem venja er á hverjum stað. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en klukkan 16.00 fjórum dögum fyrir kjördag.Sjá nánar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra.

Kosningarathöfnin

Kjósandi sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar skal gera kjörstjóra grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Með kennivottorði er átt við önnur persónuskilríki, svo sem ökuskírteini, vegabréf eða greiðslukort með mynd. Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal kjósandi síðan aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn og setja síðan atkvæðið í kjörseðilsumslagið.

Bundnar hlutfallskosningar (listakosningar)

Kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa og má hann geta þess hvernig hann vill hafa röðina á listanum.

Óbundnar kosningar (persónukosningar)

Kjósandi ritar á kjörseðilinn nöfn og heimilisföng þeirra aðal- og varamanna er hann kýs. Rita skal númer fyrir framan nöfn varamanna til að ákvarða röð þeirra. Því næst áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna. Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal og rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.