04. des. 2014

Stefnumörkun sambandsins

  • Rett_Blatt_Stort_a_vefinn

Stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014–2018 var mótuð á XXVIII. landsþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri 24. til 26. september 2014. Á landsþinginu störfuðu fjórir umræðuhópar sem hver hafði einn hinna fjögurra undirkafla stefnumörkunarinnar til umfjöllunar. Voru umræður landsþingsfulltrúa byggðar á stefnumótunarskjali sem starfsmenn sambandsins höfðu tekið saman á grundvelli stefnumörkunar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011–2014.

Á landsþinginu var samþykkt að vísa stefnumörkuninni til endanlegrar umfjöllunar og afgreiðslu hjá stjórn sambandsins.

Stjórn sambandsins hefur á tveimur fundum sínum fjallað um drög að stefnumörkun og samþykkti hana á fundi 21. nóvember 2014.

Stefnumörkun sambandsins nær til flestra meginþátta í starfsemi sambandsins og sveitarfélaga og mun nýtast sem sterk leiðsögn við ákvarðanatöku stjórnar og vinnu starfsmanna sambandsins næstu fjögur ár og jafnframt fyrir þá fulltrúa sem tilnefndir eru á vegum sambandsins í nefndir, ráð og stjórnir.