13. jan. 2012

Ný þjónusta fyrir sveitarfélög á Íslandi

  • Island.is

Þjóðskrá Íslands mun eftir áramótin bjóða sveitarfélögum upp á nýja þjónustu við birtingu álagningarseðla vegna fasteignagjalda 2012 með rafrænum hætti. Markmiðið er m.a. að gera sveitarfélögunum mögulegt að spara sér útgjöld vegna póstsendinga, pökkunar og umslaga. Að lokinni álagningu verður í álagningarkerfinu unnt að velja að birta seðlana einstaklingum og lögaðilum á „Mínum síðum“ á Ísland.is þar sem þeir sækja seðlana á PDF-formi með því að skrá sig inn á Ísland.is með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænu skilríki. Ísland.is er rafræn upplýsinga- og þjónustuveita stjórnvalda sem var upprunalega þróuð í forsætisráðuneytingu en í ársbyrjun 2011 tók Þjóðskrá Íslands við Ísland.is

„Þjóðskrá Íslands leggur mikið upp úr því að efla rafræna stjórnsýslu í starfsemi sinni,“ segir Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðaskrár Íslands. „Í júní kynntum við fasteignaeigendum fasteignamat 2012 á Ísland.is. Rökrétt framhald er að kynna fasteignaeigendum álagningu ársins með sama hætti.
Það er von Þjóðskrár Íslands að sveitarfélögin taki þessum nýja valkosti við útsendingu álagningarseðlanna vel og nýti sér hann.“