19. des. 2011

Nýsettar fjármálareglur og staða sveitarfélaga

 • SIS_Stjornsysla_sveitarfel_760x640

Fjárhagsleg staða sveitarfélaga á Íslandi er mjög mismunandi. Ástæður fyrir ólíkri fjárhagsstöðu þeirra geta verið mismunandi. Til glöggvunar og til að gera umræðu um þessi mál markvissari er mögulegt að skipa sveitarfélögum í flokka miðað við fjárhagslega stöðu þeirra. Fjárhagslegur vandi sveitarfélaga getur annað hvort verið rekstrarvandi eða skuldavandi. Í einhverjum tilvikum getur verið um vanda að ræða sem á bæði rætur að rekja til rekstrarerfiðleika og mikillar skuldsetningar.

 

A.    Grunnur að flokkun sveitarfélaga

Hér á eftir er gerð tilraun til að setja upp grunn að flokkun eftir fjárhagslegri stöðu þeirra. Unnið er út frá rekstrar- og efnahagslegri stöðu. Skilgreindar eru ákveðnar forsendur sem eru grunnur að stöðu hvers flokks fyrir sig. Sveitarfélögunum er skipt upp í fjóra flokka samkvæmt þessum forsendum. Vitaskuld eru engar hreinar línur í þessu sambandi og má eins líta á skýringarnar sem tilgátu fyrir því hvers vegna staðan er eins og raun ber vitni. Skilgreiningar á einstökum flokkum koma fram hér á eftir.

 

1.     Sveitarfélög sem skulda lítið og hafa góða afkomu af rekstri. Fjárhagsleg afkoma er í góðu jafnvægi.

a.     Ástæða

 • Íbúafjöldi hefur verið í jafnvægi eða vaxið hóflega
 • Atvinnulíf er í góðu jafnvægi
 • Tekjustofnar hafa haldið sér

b.    Afleiðingar

 • Uppbygging og viðhald á mannvirkjum sveitarfélagsins og stoðkerfi þess er í góðu jafnvægi
 • Veltufé frá rekstri gott
 • Veltufjárhlutfall yfir 1

2.     Sveitarfélög sem eru skuldsett en hafa góð tök á fjármálunum

a.     Ástæða

 • Íbúafjöldi hefur verið í jafnvægi eða vaxið hóflega
 • Atvinnulíf í sveitarfélaginu er í góðu jafnvægi
 • Tekjustofnar sveitarfélagsins hafa haldið sér
 • Ráðist hefur verið í miklar framkvæmdir á skömmum tíma.

b.    Afleiðingar

 • Rekstrarafkoma nægir til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar
 • Uppbygging og viðhald á mannvirkjum sveitarfélagsins og stoðkerfi þess er í góðu jafnvægi en fara verður varlega í stærri fjárfestingar um nokkurn tíma
 • Greiðslustaða er góð en getur verið viðkvæm vegna mikilla skulda
 • Veltufé frá rekstri er gott
 • Veltufjárhlutfall yfir 1

3.     Sveitarfélög sem skulda lítið en eiga við erfiða rekstrarafkomu að stríða.

a.     Ástæða

 • Íbúm hefur fækkað
 • Tekjustofnar hafa rýrnað og nægja ekki fyrir lögbundnum verkefnum
 • Atvinnulíf hefur dregist saman

b.    Afleiðingar

 • Rekstrarafgangur er lítill eða jafnvel enginn
 • Rekstrarkostnaður skorinn niður eftir því sem mögulegt er
 • Rekstrarhalli hefur verið fjármagnaður með eignasölu og mögulega einhverri lántöku
 • Erfitt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar enda þótt skuldir séu ekki miklar
 • Erfitt er að halda við eignum eða fara í stærri framkvæmdir
 • Veltufé frá rekstri lágt eða neikvætt
 • Veltufjárhlutfall undir 1

4.     Sveitarfélög sem eru skuldsett og eiga við erfiða rekstrarafkomu að stríða

a.     Ástæða

 • Íbúum fjölgaði mikið á ákveðnu tímabili en hefur fækkað aftur
 • Rekstrarkostnaður hefur vaxið mikið vegna þróunar í samfélaginu
 • Tekjur hafa dregist saman vegna samdráttar í atvinnulífinu, aukins atvinnuleysis og fólksfækkunar
 • Rekstrarhalli hefur verið fjármagnaður með lántökum
 • Ráðist var í miklar framkvæmdir vegna væntinga um enn meiri fjölgun íbúa sem ekki varð
 • Skuldir hafa vaxið mikið á skömmum tíma vegna mikilla framkvæmda

b.    Afleiðingar

 • Skera verður niður rekstrarkostnað til að geta staðið undir afborgunum lána og fjármagnskostnaði
 • Erfitt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar
 • Erfitt er að halda við eignum eða fara í stærri framkvæmdir
 • Skuldabyrði er erfið vegna hækkunar erlendra lána við gengisfall krónunnar
 • Fjármálaleg staða sveitarfélagsins er mjög viðkvæm og má ekki við neinum áföllum
 • Veltufé frá rekstri lágt eða neikvætt
 • Veltufjárhlutfall undir 1
Þessi flokkun er sett fram í tengslum við nýsamþykkt sveitarstjórnarlög þar sem kveðið er á um fjármálareglur sveitarfélaga. Fjármálareglur sveitarfélaga eiga annars vegar að gefa leiðsögn um þau markmið sem skuldsett sveitarfélög þurfa að setja sér til að gera fjármálalega stöðu þeirra sjálfbæra og síðan að hindra að sveitarfélög lendi í efnahagslegum þrengingum vegna ákvarðana sveitarstjórnar. Vitaskuld er svona flokkun alltaf gróf skilgreining og sjaldnast að sé hægt að leggja alveg hrinar línur í þessum efnum. Markmið hennar er fyrst og fremst að átta sig á hvernig staða sveitarfélaganna er í grófum dráttum þegar lagt er mat á hana út frá þessum sjónarhóli.