08. apr. 2011

Mikill munur á fjárframlögum sveitarfélaga til stjórnmálasamtaka

Valur Rafn Halldórsson starfsnemi hjá hag- og upplýsingasviði sambandsins skrifar

  • Valur Rafn Halldórsson

Í byrjun árs 2007 tóku gildi lög um fjármál stjórnmálasamtaka, (Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldur þeirra, nr. 162/2006). Tilgangur laganna var að auka traust á stjórnmálastarfsemi og styrkja lýðræðið í landinu. 

Samkvæmt framangreindum lögum er sveitarfélögum, sem hafa fleiri en 500 íbúa, skylt að veita stjórnmálasamtökum, sem fá a.m.k. einn fulltrúa í sveitarstjórn eða 5% atkvæða í síðustu kosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar.  Sveitarstjórnir taka ákvörðun um hvaða fjárhæðum þær veita til þessa verkefnis. Í lögunum er ekki tekið fram hvernig staðið skuli að greiðslu framlaganna. Breytingar voru gerðar á lögunum árið 2010 og tóku þær gildi í október sama ár. Breytingarnar kveða á um að sveitarfélög skuli greiða árlegt framlag til stjórnmálasamtaka. 

Í febrúar síðastliðnum gerði Samband íslenskra sveitarfélaga athugun á því hvernig sveitarfélög hér á landi haga þessum málum. Svör bárust frá 64 sveitarfélögum með u.þ.b. 95% íbúa landsins.

Yfir 40% sveitarfélaganna styrkja ekki stjórnmálasamtök sem boðið hafa fram lista við sveitarstjórnarkosningar en 23 sveitarfélög sem svöruðu könnuninni voru undir 500 íbúum og því ekki skyldug til að styrkja stjórnmálasamtök.

Styrkir til nýrra framboða

Sveitarfélög eru ekki skyldug til að styrkja ný framboð fyrir kosningar því lög um fjárframlög til stjórnmálasamtaka taka ekki til nýrra framboða.  Þrátt fyrir það hafa nokkur sveitarfélög styrkt ný framboð fyrir kosningar.

Af þeim sveitarfélögum sem svöruðu könnuninni og sögðust styrkja framboð, þá styrktu 11 sveitarfélög sem hafa fleiri en  500 íbúa ný framboð fyrir kosningarnar 2010. Taka skal fram að ekki voru ný framboð í öllum sveitarfélögunum sem svöruðu könnuninni.  Þegar niðurstaðan er greind frekar þá voru það frekar fámenn og millistór sveitarfélög sem styrktu ný framboð á meðan hin fjölmennari styrktu síður ný framboð. 

Sveitarfélög sem styrktu ný framboð fyrir síðustu kosningar fóru þó misjafnar leiðir við styrkveitingar til nýrra framboða. Algengast var að öll framboðin fengju fastákveðna jafna fjárhæð fyrir kosningarnar.

Fjárframlög til stjórnmálasamtaka árið 2010

Árið 2010 voru sveitarstjórnarkosningar haldnar hérlendis. Af þeim 64 sveitarfélögum sem svöruðu könnuninni styrktu 34 þeirra stjórnmálasamtök á árinu 2010 eða um 53% sveitarfélaganna sem svöruðu könnuninni.  Árið 2010 vörðu sveitarfélögin samtals um 68,3 m.kr. í styrki til stjórnmálasamtaka og athygli vekur hversu mikill munur er á lágmarks og hámarks fjárhæð á íbúa sem sveitarfélögin greiða til stjórnmálasamtaka.  Lágmarks fjárhæðin var 54 kr. og hámarks fjárhæðin 642 kr. og er munurinn því 588 kr. eða hátt í tólffaldur. Meðaltalsgreiðsla á árinu var 234 kr. á íbúa.

Tafla 1: Fjárframlög sveitarfélaga til stjórnmálasamtaka árið 2010

Íbúafjöldi  500-1.999  2.000-4.999  5.000-9.999  >10.000  Samtals
Heildarfjöldi sveitarfélaga 28 13 3 6 50
Heildarfjárhæð 5.575.000 5.944.377 4.403.939 52.376.000 68.299.316
Meðaltal á íbúa 277 186 192 241 234
Lágmarks fjárhæð á íbúa 55 54 138 114 54
Hámarks fjárhæð á íbúa 642 435 256 376 642
Fjöldi svfél. af þeim svfél. sem svöruðu 15 af 22 10 af 10 3 af 3 6 af 6 34 af 41

 

Athygli vakti að sex sveitarfélög sem eru yfir 500 íbúum og tóku þátt í könnuninni styrktu ekki stjórnmálasamtök þrátt fyrir að þeim beri það skv. lögum nr. 162/2006. Í þeim hóp er eitt sveitarfélag sem hefur yfir 1.000 íbúa. 

 

Í ár gera 25 sveitarfélög, sem eru yfir 500 íbúum, ráð fyrir því að styrkja stjórnmálasamtök ásamt einu sveitarfélagi sem er undir 500 íbúum. Eins og hefur komið fram þá tók nýtt ákvæði gildi í október 2010 um að sveitarfélögum yfir 500 íbúum sé skylt að greiða stjórnmálasamtökum styrki árlega. Því vekur athygli að 16 sveitarfélög sem svöruðu könnuninni og eru yfir 500 íbúum, gera ekki ráð fyrir því að styrkja stjórnmálasamtök á árinu 2011.

Skýrslu um niðurstöður könnunarinnar.