01. feb. 2011

Aðgát skal höfð...

  • whisper

Grein eftir Tryggva Þórhallsson, lögfræðing á lögfræði- og velferðarsviði sambandsins, og Guðrúnu Ósk Sigurjónsdóttur, lögfræðing á kjarasviði sambandsins, sem birtist í janúar-hefti Sveitarstjórnarmála 2011.

sem birtist í janúar-hefti Sveitarstjórnarmála 2011.

Flest sveitarfélög hafa á síðustu misserum tileinkað sér upplýsingatæknina í ríkari mæli til þess að hafa samskipti við íbúa. Þróaðir hafa verið gagnvirkir vefir þar sem fylgjast má með stöðu einstakra mála í stjórnsýslunni, en jafnframt hafa allmörg sveitarfélög komið sér upp vettvangi á netinu þar sem íbúar, kjörnir fulltrúar og starfsmenn geta skipst á skoðunum um margvísleg samfélagsmálefni. Bæði þekkist að þessi vettvangur sé einn og hinn sami fyrir allt samfélagið en einnig geta þessir samskiptamöguleikar afmarkast við málaflokka eða stofnanir, og má þar nefna skólana sem dæmi.

Þar sem vettvangur af þessum toga hefur orðið til hafa sveitarstjórnarmenn verið duglegir við að nýta sér hann. Kjörnir fulltrúar sjá í þessu möguleika til þess að hafa bein samskipti við íbúa og skynja betur hvernig straumarnir í samfélaginu liggja hverju sinni. Starfsmenn sveitarfélaga sjá í þessu möguleika til þess að sinna eðlilegri samráðsskyldu við íbúa og hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar. Allt er þetta í góðu samræmi við þann lýðræðislega grunn sem sveitarfélögin byggja á og áherslur þeirra á öfluga og trausta nærþjónustu.

Neikvæðu hliðarnar

Þessi þróun hefur þó ekki einungis jákvæðar hliðar því upp hafa komið dæmi um að þessar samskiptaleiðir séu misnotaðar. Í einhverjum tilvikum er þar gáleysi um að kenna – að það hve auðvelt er að hafa samskipti á netinu leiði til þess að sá sem mundar pennann í netheimum gæti ekki orða sinna sem skyldi. Einnig er til að ásetningur búi að baki og að misnotkun fari fram í skjóli þess hve erfitt er að halda uppi lögum og reglum á netinu. Hér er þó sem betur fer um fá dæmi að ræða.

Síðarnefndu tilvikin eru til muna alvarlegri og þá sérstaklega fyrir þann sem vegið er að úr launsátri. Á það hefur einnig verið bent í almennri umræðu að lausari umgjörð um samskipti á netinu geti haft neikvæð áhrif á almenna þjóðfélagsumræðu. Hafa menn jafnvel talið sig sjá ákveðin teikn um að tilkoma netsins hafi valdið almennri óvissu um það hvar mörk og ábyrgðarskil liggi þegar deilumál eru til umræðu í prentmiðlum og ljósvakamiðlum.

Hvar liggja mörkin?

Sá sem birtir ummæli á opinberum vettvangi ber ábyrgð á því að það sem látið er uppskátt virði rétt annarra til friðhelgi um lífshætti sína og einkahagi. Þessi friðhelgi nær bæði til persónu viðkomandi  - æru, heimili og fjölskyldu – en jafnframt njóta tilteknir hópar verndar fyrir árásum sem beinast að því sem þessir hópar eiga sameiginlegt, hvort sem um er að ræða trúarskoðanir, þjóðerni eða félagslega stöðu í samfélaginu. Fleiri atriði koma þar einnig til greina.

Þessi vernd er einstaklingsbundin í öllum tilvikum. Af þeirri ástæðu geta stofnanir og embætti ekki krafist æruverndar. Kjörnum fulltrúa getur vissulega sviðið undan skömmum um sitt sveitarfélag en hann getur ekki brugðist við með sama hætti og ef ráðist er á hann persónulega. Embættismenn verða einnig að þola að fjallað sé um verk þeirra, jafnvel með óvægnum hætti, án þess að geta borið fyrir sig æruvernd.

Hér verður þó að taka skýrt fram að fullyrðingar um persónu starfsmannsins eru að sjálfsögðu annars eðlis en umfjöllun um embættisverk hans sem starfsmanns. Vandinn er á hinn bóginn sá að mörkin hér á milli eru oft óglögg og dæmi um að menn nýti sér það til þess að koma höggi á starfsmanninn, samhliða því að gagnrýna embættisverk. Það eykur enn á þennan vanda að starfsmaðurinn er bundinn af tilteknum skyldum í starfi sem takmarka það hvernig hann getur brugðist við.

Geðþótti ráði ekki för

Í svörum við gagnrýni á stjórnsýslu sveitarfélags ættu starfsmenn – og kjörnir fulltrúar einnig – að leitast við að upplýsa íbúa um staðreyndir mála og leiðrétta rangfærslur, að því leyti sem þagnarskylda bindur ekki hendur þeirra. Starfsmenn ættu hins vegar að standast þá freistingu að svara gagnrýnendum fullum hálsi, jafnvel þótt gagnrýni kunni að vera ómálefnaleg. Þar ber að hafa í huga það almenna viðhorf að opinber starfsmaður skuli ekki aðhafast neitt það sem varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við. Íbúar og aðrir viðskiptamenn sveitarfélags verða einnig að geta treyst því að geðþótti ráði ekki för í stjórnsýslunni.

Slíkar viðteknar skyldur geta vissulega orðið til þess að starfsmaður sem verður fyrir persónulegri árás geti ekki svarað árásinni „í sömu mynt“ á opinberum vettvangi. Starfsmaður sem ekki gætir að sér í þessu efni, og notar síðan vefsvæði sveitarfélagsins til gagnárásar á íbúa eða viðskiptamann, gæti þurft að svara fyrir meint tvöfalt brot – bæði ærumeiðingu gagnvart þeim sem fyrir verður og brot gegn starfsskyldum sínum.

Hið sama má segja um kjörna fulltrúa enda hlýtur tilgangur samskiptavefja sveitarfélaga að vera sá að upplýsa íbúa og stuðla að málefnalegri umræðu um málefni sveitarfélagsins. Til að slíkur vettvangur virki sem skyldi er nauðsynlegt að kjörnir fulltrúar sýni gott fordæmi. Þeir þurfa einnig að gæta að þagnarskyldu sinnar um einstaklingsmálefni og fjárhagsmálefni fyrirtækja.

Starfsskyldur geta takmarkað tjáningarfrelsið

Starfsskyldur geta þannig takmarkað tjáningarfrelsi starfsmanna sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa. Með sama hætti geta starfsskyldur og hlutverk innan stjórnsýslunnar leitt til þess að starfsmönnum og kjörnum fulltrúum sé rétt – og eftir atvikum skylt – að tjá sig um mál. Er skemmst að minnast héraðsdóms sem nýlega féll þar sem þrír bæjarfulltrúar í Kópavogi voru sýknaðir af meiðyrðum í garð tiltekins viðskiptaaðila bæjarfélagsins. Voru tildrög málsins þau að bæjarfulltrúarnir birtu grein í Morgunblaðinu í júní 2009, þar sem umrædd viðskipti voru gagnrýnd. Einn bæjarfulltrúanna var jafnframt til viðtals í fréttum ríkissjónvarpsins og Fréttablaðsins þar sem gagnrýnin var ítrekuð.

Í forsendum héraðsdóms er rakið að þeir sem töldu ummælin meiðandi hafi verið í viðskiptum við opinberan aðila og eðli málsins samkvæmt gátu bæjarfulltrúarnir ekki fjallað um málið án þess að nafn viðskiptaaðilans bæri á góma og tengsl forsvarsmanna hans við fyrrverandi bæjarstjóra Var niðurstaða héraðsdómara um sýknu einkum rökstudd með því að bæjarfulltrúar, sem voru stefndu í málinu, hafi verið að sinna eftirlitshlutverki sínu sem bæjarfulltrúar með því að hafa uppi tiltekin ummæli um þau viðskipti sem átt höfðu sér stað.

Tekið skal fram að ekki mun hafa verið tekin afstaða til þess hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Hvaða kröfur verður vefur sveitarfélags að uppfylla?

Auk þeirra atriða sem hér hafa verið nefnd, og varða það hvernig starfsmenn og kjörnir fulltrúar tjá sig um málefni sveitarfélagsins, er rétt að hafa í huga að vefir sveitarfélaga verða einnig að svara  tilteknum kröfum um að spornað sé gegn misnotkun, eftir því sem hægt er. Þessar kröfur er ekki að finna í lögum en þær má hins vegar leiða af þeirri skyldu sveitarfélaga að sjá um að stjórnsýsla þeirra sé í góðu horfi.

Á slíkar reglur reyndi nýlega í máli sem varðaði ummæli er birtust undir röngu nafni á samfélagsvef Sveitarfélagsins Álftaness. Í meiðyrðamáli sem höfðað var komst héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að ummælin skyldu dæmd dauð og ómerk. Jafnframt leysti dómarinn úr því hvort sveitarfélagið bæri ábyrgð á greiðslu bóta til þolenda ummælanna vegna ritstjórnarábyrgðar eða þess hvernig staðið var að setningu reglna um samfélagsvefinn. Niðurstaða héraðsdómara í þessu efni var sú að sveitarfélagið væri ekki bótaskylt en til þess að komast að þeirri niðurstöðu fór dómarinn m.a. í gegnum þær reglur sem sveitarfélagið hafði sjálft sett um notkun umræðuvefsins. Var ekki fallist á þær reglur væru ófullnægjandi. 

Tekið skal fram að ekki mun hafa verið tekin afstaða til þess hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Nauðsynlegt að setja skilmála um notkun

Af þessu máli má draga þá ályktun að sveitarfélag, sem starfrækir samfélagsvefi eða annan slíkan vettvang, skuli setja reglur eða skilmála um notkun vefsins, þar sem fram komi að notendum beri að skrá fullt nafn og virkt netfang. Jafnframt sé brýnt fyrir notendum að umræður eigi að vera málefnalegar, kurteisar og ekki snúast um einstakar persónur eða hópa. Ástæða er til að taka sérstaklega fram að hatursáróður í garð einstakra hópa sé bannaður.

Í þessum reglum er jafnframt rétt að skrá helstu viðmið um það með hvaða hætti starfsmenn og kjörnir fulltrúar tjá sig á slíkum vefjum. Ennfremur ætti að koma fram að ummæli sem þyki brjóta í bága við reglurnar verði umsvifalaust fjarlægð, en að fjarlæging breyti því ekki að notandi beri fulla ábyrgð á ummælum sínum.

Þá væri það í samræmi við góða stjórnsýsluhætti ef sveitarfélög skráðu jafnframt verklag um það hvernig brugðist er við kvörtunum, og hvernig tryggt er að rekja megi þau ummæli sem sett eru á vefinn.  

Í þessari grein hefur einkum verið fjallað um atriði sem snúa að vefsvæðum sem sveitarfélög hafa beina aðkomu að. Sveitarstjórnarmenn, kjörnir fulltrúar og starfsmenn, halda síðan margir úti bloggsíðum eða eru með innlegg á slíkum síðum. Það verður viðfangsefni annarrar greinar að fjalla um þær reglur sem gilda um ábyrgð á ummælum sem þar birtast.