Samkvæmt lögum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) mun innleiðing á því þjónustuformi standa yfir í þrepum allt til loka ársins 2022, en alls er gert ráð fyrir að 630 samningar verði gerðir á fimm ára tímabili. Frestun á gildistöku laganna seinkar gerð 52 samninga fram að áramótum.
Samkvæmt lögum um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, mun innleiðing á því þjónustuformi standa yfir í þrepum allt til loka ársins 2022, en alls er gert ráð fyrir að 630 samningar verði gerðir á fimm ára tímabili. Frestun á gildistöku laganna seinkar gerð 52 samninga fram að áramótum.
Lög nr. 38/2018, sem taka gildi þann 1. október n.k., gera ráð fyrir að á innleiðingartímabilinu 2018 til 2022 verði veitt framlag til alls 630 samninga um NPA, en á fundi velferðarráðuneytis með Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 26. júní sl. kom fram, að þrepaskipt fjölgun samninga verði í samræmi við þau framlög sem veitt eru til verkefnisins.
• Á árinu 2018 allt að 80 samningar
• Á árinu 2019 allt að 103 samningar
• Á árinu 2020 allt að 125 samningar
• Á árinu 2021 allt að 150 samningar
• Á árinu 2022 allt að 172 samningar
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru gildandi NPA-samningar 51 talsins, en þessir samningar hafa verið gerðir á grundvelli tilraunaverkefnis sem staðið hefur frá árinu 2012. Þeir samningar verða nú endurnýjaðir og er gert ráð fyrir að þeirri endurskoðun ljúki fyrir áramót og miðist við 1. október 2018.
Hvað varðar nýja samninga um NPA, sem samkvæmt framangreindu verða allt að 52 talsins, þá hefur sambandið farið þess á leit að gildistími þeirra samninga miðist við 1. janúar nk.
Ástæðan er sú að gerð nýrra samninga mun byggjast á reglugerð sem velferðarráðuneytið hefur í smíðum og mun væntanlega gefa út nú á næstunni. Þegar reglugerð ráðuneytisins liggur fyrir, þarf að veita sveitarfélögum ráðrúm til að útfæra þau atriði sem reglugerðin fjallar um.
Fyrirsjáanlegt er að sveitarfélög munu ekki hafa lokið þeirri vinnu þegar lögin taka gildi þann 1. október. Seinkun á ferli umsókna á þessu ári er því óumflýjanleg. Afstaða sambandsins er því sú, að fresta gerð nýrra samninga á meðan sveitarfélögin ljúka nauðsynlegum undirbúningi, frekar en að hefja ferlið í óvissu gagnvart þeim aðilum sem sækja um NPA-samninga.
Sambandið vakti ítrekað athygli á því í vor, gagnvart velferðarráðuneytinu og velferðarnefnd Alþingis, að tímarammi innleiðingar gagnvart nýjum samningum væri mjög knappur ef miðað ætti við 1. október nk.