Framkvæmdastjórn ESB vinnur samkvæmt aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfisins sem gefin var út í mars 2020. Hún leysir af hólmi áætlun sem ríki ESB hafa starfað eftir frá 2015.
Evrópuþingið styður áform framkvæmdastjórnar ESB og ef eitthvað er vilja þingmenn jafnvel ganga enn lengra en lagt er upp með. Framkvæmdastjórnin er skuldbundin til að tryggja skjóta framkvæmd allra aðgerðanna 35 sem aðgerðaáætlunin inniber, þar á meðal:
- Bætt vöruhönnun og vistvænni vörur.
- Efla neytendur og opinbera kaupendur.
- Horfa til þeirra þátta þar sem möguleikar hringrænna hagkerfis eru hvað mestir, t.d. rafeindatækni og upplýsingatækni, rafhlöður og farartæki, umbúðir, plast, textíll og byggingar- og niðurrifsúrgangur.
- Tryggja minni sóun.
- Aukin atvinna og nýsköpun.
- Alþjóðlegt átak í hringlaga hagkerfi.
Þann 10. nóvember 2020 samþykkti framkvæmdastjórn ESB tillögu að reglugerð um að nútímavæða löggjöf ESB um rafhlöður sem er hluti að aðgerðaáætluninni. Markmiðið er að rafhlöður sem settar eru á ESB-markaðinn séu sjálfbærar, stuðli að hringlaga hagkerfi, séu afkastamiklar og öruggar allan sinn lífsferil. Einnig að þeim sé safnað, endurnotaðar, endurunnar og endurnýttar og verði raunveruleg uppspretta verðmætra hráefna.
Málefni tengd hringrásarhagkerfinu eru ekki einungis til umræðu í Brussel þessa dagana. Þann 12. janúar síðastliðinn kynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, drög að stefnu Íslands um meðhöndlun úrgangs 2021-2032. Drögin eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda undir heitinu Í átt að hringrásarhagkerfi, en meginmarkmið stefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs.
Hringrásarhagkerfið og starfsemi sveitarfélaga
Hringrásarhagkerfið snertir starfsemi sveitarfélaga á Íslandi með beinum hætti. Því er mikilvægt að vel sé fylgst með því sem er á döfinni hjá ESB hvað þessi mál varða, þar sem fastlega má reikna með því að löggjöf ESB sem snýr að hringrásarhagkerfinu verði að miklu leyti innleidd hér á landi. Í því ljósi er áhugavert að skoða hvaða þættir það eru sem þingmenn Evrópuþingsins leggja áherslu á og snerta málefni sveitarstjórna.
Það eru einkum þrír meginþættir sem þingmenn Evrópuþingsins leggja áherslu á. Í fyrsta lagi að horfið verði frá núverandi kerfi þar sem við erum sífellt að „taka-skapa-henda“. Í öðru lagi verði sett bindandi markmið varðandi notkun á hráefni, hvað varðar neyslu og sóun og endurvinnslu og aðra endurnýtingu. Þessum bindandi markmiðum á síðan að ná eigi síðar en 2030, sem er í beinu samræmi við 2030 markmið ESB varðandi loftslagsmál. Í þriðja lagi telja þingmenn Evrópuþingsins rétt að tilskipun sem varðar umhverfisvæna hönnun (Ecodesing Directive) nái yfir fleiri vörur en rafmagnsvörur.
Þessu til viðbótar vilja þingmenn Evrópuþingsins að ESB beiti sér fyrir því að stytta leiðina fyrir vörur frá framleiðslu og á borð neytenda. Því sé mikilvægt að stuðla að framleiðslu og verslun í heimabyggð, en þannig megi styðja við framleiðslu heima í héraði og koma í veg fyrir að sífellt sé verið að flytja hráefni og vörur landhorna og heimshorna á milli.
Þá leggja þingmenn Evrópuþingsins til að sveitastjórnir fá fjármagn til þess að setja upp s.k. Hringrásarstöðvar (Circularity hubs) og þau hvött til þess að deila þekkingu og tækni sem best gefst þegar kemur að meðhöndlun, endurvinnslu og endurnýtingu á úrgangi.
Samband íslenskra sveitarfélaga mun fylgjast náið með framvindu mála sem tengjast Hringrásarhagkerfi ESB, meðal annars í samstarfi við Evrópusamtök sveitarfélaga og Municipal Waste Europe.