Afkoman slök en betri en reiknað var með

Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur tekið saman ársreikninga tíu stærstu sveitarfélaga landsins fyrir árið 2021. Um er að ræða A-hluta en þar er um að ræða verkefni sem eru að stærstum hluta fjármögnuð með sköttum.

Í þessum tíu sveitarfélögum bjuggu þann 1. janúar sl. rétt tæplega 300 þúsund manns, sem er 79,7% af íbúafjölda landsins.

  • Rekstrartekjur A-hluta hækkuðu um rösklega 10% frá 2020 til 2021 og rekstrargjöld um 9%. Gjöldin hækkuðu minna í Reykjavík en í hinum 9  sveitarfélögunum. 
  • Laun og tengd gjöld hækkuðu um rúm 11% milli ára. Hækkunin var meiri hjá borginni, um 12,5% og um rösklega 10% utan borgarinnar. Alls námu laun og tengd gjöld um 60% af tekjum Reykjavíkurborgar, en nokkru minna í hinum 9 sveitarfélögunum eða um 56%. Sé hins vegar breyting lífeyrisskuldbindingar talin með launatengdum gjöldum er hlutfallið um 60% af tekjum.  Frá 2019 hefur launakostnaður þessara sveitarfélaga aukist um sem nemur  4,5% af tekjum.
  • Rekstrarniðurstaða var neikvæð um sem nemur 1,8% af tekjum. Afkoma borgarinnar var betri 2021 en 2020, einkum vegna lækkunar lífeyrisskuldbindinga og sölu byggingaréttar. Í hinum sveitarfélögunum var hallinn aðeins meiri en árið 2020. Fjögur sveitarfélög skiluðu rekstrarafgangi og sex rekstrarhalla.
  • Veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar minnkaði verulega frá árinu 2020 og nam einungis 0,3% af tekjum borgarinnar. Í hinum sveitarfélögunum var veltufé frá rekstri  5,3% af tekjum sem er óbreytt frá fyrra ári.
  • Skuldir og skuldbindingar Reykjavíkurborgar jukust verulega milli ára, eða um 16,8% en um 4,9% í hinum sveitarfélögunum. Skuldir og skuldbindingar Reykjavíkurborgar eru engu að síður lægri í hlutfalli við tekjur en í hinum sveitarfélögunum.
  • Fjárfestingar jukust milli ára um 9,4% í Reykjavík en um aðeins 3,4% í hinum sveitarfélögunum.
  • Í sögulegu samhengi er afkoma þessara sveitarfélaga mjög slök, en þó mun betri en þau reiknuðu með í fjárhagsáætlunum. Þannig reyndust skatttekjur vera 6,7% hærri en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir og tekjur í heild 8,8% meiri. Laun og launatengd gjöld voru um 6,5% hærri en ráð var fyrir gert, en önnur rekstrargjöld reyndust minni og rekstrargjöld í heild að meðaltali eins og í fjárhagsáætlun. Rekstrarniðurstaða varð fyrir vikið mun betri en fjárhagsáætlun sagði til um, eða sem nemur 5% af tekjum skv. fjárhagsáætlun. Skuldir og skuldbindingar reyndust um 3% lægri en í fjárhagsáætlunum. Áform um fjárfestingar gengu ekki eftir og munar þar langmest um Reykjavíkurborg, en fjárfestingar borgarinnar reyndust um 11,5 ma.kr. minni en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum.