Við stöndum frammi fyrir einni mestu niðursveiflu í efnahagsmálum heimsins. Við stöndum frammi fyrir óvissu af einstakri tegund. Við stöndum frammi fyrir ósýnilegum óvini sem gæti verið í mér eða þér eða í okkur öllum.
Þannig hóf Sigurður Á. Snævarr sviðsstjóri hag-og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga erindi sitt í upphafi síðari dags Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og vísaði þar til áhrifa COVID 19 faraldursins á efnahag landsins og heimsins alls. Hann sagði að nú stefndi í að landsframleiðslan hér á landi yrði 185 milljörðum minni á næsta ári en spáð hafði verið í febrúar 2019 og 120 milljörðum minni en á árinu 2019, reiknað á verðlagi 2020. Hann sagði að ekki yrði hægt að „vaxa upp úr vandanum“ því sá vöxtur sem spáð væri næstu árin dygði ekki til að stoppa í gatið sem 7,6% samdráttur landsframleiðslu í ár skilur eftir sig. Sigurður sagði ekki útlit fyrir að Íslendingar myndu ná sömu landsframleiðslu og 2019 fyrr en 2022 og þegar tekið væri tillit til spár um fjölgun landsmanna myndi það varla nást fyrr en 2026.
Óvissa um þróun
Sigurður sagði framvindu faraldursins, viðbrögð stjórnvalda og almennings valda því að óvissa um þróun efnahagsmála væri meiri nú en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir það þyrfti að leggja fjárhagsáætlun 2021-2024 fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóv nk. og um það snúist Fjármálaráðstefna sveitarfélaga að þessu sinni. Sigurður sagði að sviðsmyndir sem teiknaðar voru upp síðast liðið vor með mismunandi forsendum um atvinnuleysi og fleiri þætti allar bera að sama brunni. Fjárvöntun á þessu og næsta ári yrði um 50 milljarðar króna og jafnvel meiri.
Staðgreiðslan mælikvarði á vandann
Sigurður sagði að staðgreiðsla útsvars svipaðan mælikvarða á sveitarfélög og blóðþrýstingur á mannslíkamann. Staðgreiðsla þessa árs (feb til ágúst) sýni 1,2% hækkun frá sama tíma í fyrra en hafa þurfi í huga að í fjárhagsáætlunum var gert ráð fyrir 5,8% hækkun útsvars milli ára. Hann sagði að þetta skýrðist að mestu af auknu atvinnuleysi en Vinnumálastofnun reikni með að atvinnuleysi muni losa 10% í lok ársins sem er heldur minna en spáð hafði verið.
Að sögn Sigurðar gætti mikillar svartsýni þegar verið var að draga upp hugsanlegar sviðsmyndir í vor og var þá jafnvel gert ráð fyrir 15-18% atvinnuleysi. Nú segi spámenn hins vegar að atvinnuleysi verði 7,8% í ár og 6,8% á því næsta. Þá hafi ýmsar aðgerðir ríkisins bætt í útsvarsstofninn sem allt í allt gæti numið rúmlega 60 milljörðum kr. sem gæti aukið útsvarið um 8-9 milljarða. Hér koma til úttekt séreignasparnaðar upp á 16 milljarða, hlutabótaleið upp á 34 milljarða, laun í uppsagnarfresti upp á 10 milljarða og tekjutengdar bætur í 6 mánuði um 2 milljarðar.
Bjartsýni í spá um atvinnuleysi
Sigurður vísaði til nefndar um fjármál sveitarfélaga sem skoðaði frávik frá fjárhagsáætlun sveitarfélaga vegna C19 og komast að þeirri niðurstöðu að um tæplega 30 milljarða viðsnúning væri að ræða. Samkvæmt því verði 20 milljarða króna halli á sveitarfélögunum. Sigurður sagði erfitt að spá um framvinduna og vísaði til þjóðhagsspár sem Hagstofan birti í gær og sem sveitarfélögunum beri samkvæmt reglugerð að miða við. Samkvæmt henni verður samdrátturinn 7,8% í ár og hagvöxtur þegar á næsta ári verði 3,9% og haldi síðan áfram í hægum en jöfnum takti. Hann sagði að spá um að atvinnuleysi verði 7,8% í ár og 6,8% á því næsta fyndist mörgum lýsa bjartsýni, en það undirstrikaði þá miklu óvissu sem fram undan er.
Heildarlaun lækka um 6,7% í ár
Sigurður sagði að sveitarfélögunum yrði í næstu viku sent endurskoðað minnisblað um forsendur fjárhagsáætlunar þar sem meðal annars yrði fjallað um væntanlega þróun útsvarsstofnsins samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Þar komi fram að heildar launaútgjöld muni lækka um 6,7 % í ár og hækka um tæplega 8% næstu 2 árin. Miðað við þessar spár hækki útsvarsstofninn um 1% í ár, um 3,2% á því næsta og 6,4%´2022.
„Fjárhagsaðstoð er fylgifiskur atvinnuleysis. Hrunið kenndi okkur að atvinnuleysi gengur hægt niður þótt hagvöxtur taki við sér á ný og líka hitt að fjárhagsaðstoð gengur enn hægar niður,“ sagði Sigurður. Þetta þýðir að sögn hans að útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar munu aukast verulega. Könnun á útgjöldum 10 stærstu sveitarfélaganna sýni að fjárhagsaðstoð muni hækka um 30% í ár og um 60% á því næsta.
Lykillinn er að auka atvinnu
Sigurður minnti á að fjármálareglum sveitarstjórnarlaganna hefur verið vikið til hliðar til ársins 2022 og hugsanlega til lengri tíma. En hvað tekur þá við viti enginn. Ef ekki fengist frekari aðlögun þyrfti að draga saman seglin harkalega. „Við gengum í gegnum hrunið og komumst af. Það var gert með því að skera heilmikið niður, fækka starfsfólki. Lykilinn var þó auðvitað að auka atvinnu. Það eru þessar lausnir sem á ný blasa við,“ sagði Sigurður Á Snævarr.