Áfangastaðaáætlanir allra landshluta kynntar

Áfangastaðaáætlanir landshlutanna voru kynntar á fjölsóttum kynningarfundi í gær, en verkefnið er það umfangsmesta sem unnið hefur verið á grundvelli Vegvísis í ferðaþjónustu. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvetur sveitarfélög eindregið til þess að kynna sér áætlanirnar. Mikilvægt sé að þær nýtist sveitarfélögum og landshlutum til uppbyggingar. 

Áfangastaðaáætlanir landshlutanna voru kynntar á fjölsóttum kynningarfundi í gær, en verkefnið er það umfangsmesta sem unnið hefur verið á grundvelli Vegvísis í ferðaþjónustu. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvetur sveitarfélög eindregið til þess að kynna sér áætlanirnar. Mikilvægt sé að þær nýtist sveitarfélögum og landshlutum til uppbyggingar. 

Í ávarpi sínu á fundinum minnti Aldís jafnframt á, að enn stæði á efndum ríkisstjórnarinnar vegna gistináttagjaldsins, en því er m.a. ætlað að greiða fyrir uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum fyrir ferðaþjónustu.

Áfangastaðaáætlanir hafa verið unnar í samvinnu Ferðamálastofu við markaðsstofur landshlutanna og hefur hver áætlun verið unnin í nánu samráði við haghafa innan hvers landshluta. 
Um heildstæðar áætlanir er að ræða, þar sem litið er til skipulags og samhæfingar þeirra þátta sem hafa áhrif vöxt og viðgang, ekki aðeins ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta, heldur einnig þjónustu sem skiptir íbúa og fyrirtæki máli. Áfangastaðaáætlun er þannig sameiginleg stefnuyfirlýsing landshlutans, sem hefur það að markmiði að stýra svæðisbundinni uppbyggingu og þróun yfir ákveðinn tíma.

Auk þess sem formaður sambandsins vék í ávarpi sínu að gistináttagjaldinu og þýðingu þess fyrir sveitarfélögin, þá benti hún einnig á að heilsársferðaþjónusta væri forsenda þess að áfangastaðir geti vaxið og dafnað. Gististaðir utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurlands eigi þó margir hverjir í vök að verjast og mikilvægt sé því að hugað verði að samkeppnisstöðu þeirra, s.s. með heimild til sveitarstjórna vegna 90 daga reglunnar. Sambandið mælist jafnframt til þess, að tillögur Ferðamálaráðs um þrengingu á 90 daga reglunni komi sem fyrst til framkvæmda. 

Í framhaldi af því að áfangastaðaáætlanir allra landshluta liggja nú fyrir, mun Ferðamálastofa birta þær allar á vef sínum ásamt stöðluðum grunnupplýsingum sem unnar verða upp úr hverri þeirra. 

AH-a-fundi-um-DMPAldís Hafsteinsdóttir ávarpar kynningarfund Ferðamálastofu á áfangastaðaáætlunum landshlutanna, sem fram fór 15. nóv. sl.