27. sep. 2018

Áfangaskýrsla nefndar um endurskoðun á jöfnunarframlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélga

  • Hof-akeyrir-2

Þann 12. september 2016 skipaði innanríkisráðherra nefnd sem falið var að gera endanlegar tillögur um fyrirkomulag nýrra aðferða við jöfnun á útgjaldaþörfum og tekjumöguleikum sveitarfélaga. Í erindisbréfinu kom fram að unnið hefði verið að heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 2010. Skipaður hafi verið vinnuhópur árið 2010 sem skilaði drögum að nýju líkani fyrir jöfnunarframlög sjóðsins en engu að síður væri nokkur vinna eftir við lokafrágang verkefnisins og gerð nýs líkans. Nefndinni var ætlað að hafa þær tillögur sér til hliðsjónar við vinnu sína. 

Formaður nefndarinnar var Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga var Ásta Stefánsdóttir og kynnti hún jafnframt skýrslu nefndarinnar frá október 2017 á XXXII. landsþingi, en efni hennar mun nýtast í umræðuhópum þingsins síðar í dag.  

Í máli Ástu kom m.a. fram nefndin hefði hefði verið sammála um að megintilgangur með endurskoðun á jöfnunarsjóði væri að einfalda regluverkið og auka gagnsæi í forsendum úthlutunar. Einnig að auka gæði jöfnunaraðgerða, þannig að sambærileg sveitarfélög fái sambærileg framlög úr sjóðnum, svo að dæmi séu tekin um þau markmið nefndarstarfsins sem Ásta nefndi.

Tillögur nefndarinnar um breytingar á regluverki jöfnunarsjóðs eru ítarlegar og skiptast annars vegar í aðgerðir sem nefndin leggur til að gripið verði strax til og hins vegar í umfangsmeiri breytingar sem þurfa að mati hennar lengri aðdraganda.

Á  meðal aðgerða sem má að mati nefndarinnar grípa strax til má nefna, að framlög sjóðsins verði skert til sveitarfélaga sem nýta ekki útsvarshlutfall sitt að fullu og að hámark verði sett á framlög sem samsvari 45% af heildarskatttekjum sveitarfélags.

Hvað þróun nýs jöfnunarkerfis snertir, þá byggir nefndin þær tillögur sínar m.a. á niðurstöðum vinnuhóps innanríkisráðuneytisins og Samband íslenskra sveitarfélaga, en þar var m.a. litið til fyrirkomulags jöfnunar í Noregi. Í megindráttum gera þessar tillögur ráð fyrir nýju kerfi, þar sem m.a. tekjujöfnunarframlag, útgjaldajöfnunarframlag og almenn framlög vegna grunnskóla úr sjóðnum yrðu sameinuð. Heildarupphæð þessara þriggja gerða af framlögum var um 17 milljarðar króna á árinu 2017.

Þá kom fram hjá Ástu að jöfnunarkerfi sjóðsins hafi verið hugsað alveg upp á nýtt af hálfu nefndarinnar, með áherslu á gagnsærri reikniaðferðir og einfaldari úthlutunaraðferðir.  Grundvöllur nýja kerfisins felist í því, að tekjur og útgjöld sveitarfélaga verði metnar út frá útsvarsstofni og fasteignaskattstofni, líkt og nú er gert í tekjujöfnunarframlagi sjóðsins. Mat á heildarútgjöldum verði síðan byggt á þriggja ára meðaltal af útgjöldum hvers sveitarfélags út frá ársreikningum og útgjaldalína fundin út frá aðhvarfsgreiningu á útgjöldum og íbúafjölda.

Ásta kynnti tillögur nefndarinnar á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna á síðasta ári.