Mánudaginn 5. september fór fram ráðstefna undir yfirskriftinni Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið. Ráðstefnan fór fram á Grand hóteli og var einnig í beinu streymi á vef sambandsins.
Það voru Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og innviðaráðuneytið, Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun og Reykjavíkurborg sem stóðu að viðburðinum.
Umfjöllunarefni fundarins voru áhrif loftslagsbreytinga á byggðir landsins og íslenskt samfélag, sem og sú vinna sem framundan er til þess að aðlaga innviði okkar, atvinnuvegi og samfélög að þeim breytingum sem vænta má.
Á ráðstefnunni flutti Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins ávarp. Meðal annarra framsögumanna má nefna Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Önnu Huldu Ólafsdóttur frá Veðurstofunni, Láru Jóhannsdóttur frá Háskóla Íslands, Tinnu Halldórsdóttur frá Austurbrú og Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra.