Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur gefið út leiðbeiningar um brunavarnir í frístundabyggðum. Leiðbeiningarnar eru gefnar út í samræmi við 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.
Leiðbeiningar þessar fjalla almennt um þær eldhættur sem til staðar eru og geta skapast í frístundabyggðum sem og varnir gegn henni. Með tilkomu betri byggingarefna og auknu framboði til upphitunar hefur hönnun nýbyggðra frístundahúsa miðast við að þau séu notuð á öllum árstímum. Einnig hafa mörg eldri hús verið endurbætt svo að unnt sé að dvelja í þeim allt árið um kring. Algengast er að frístundahús séu byggð úr timbri og oft umlukin timburveröndum. Áður fyrr stóðu frístundahús alla jafna á opnum svæðum með takmarkaðri hættu á gróðureldum, með betri vaxtarskilyrðum og auknum áhuga á gróðursetningu undanfarna áratugi hefur gróður vaxið hraðar, hann er orðinn þéttari og hætta á gróðureldum hefur þar með stóraukist. Ógrisjaður gróður getur aukið hættuna á útbreiðslu elds.
Mikilvægt er að skipuleggja gróðursvæði vel og sinna reglulegri hirðingu þeirra og grisjun. Þannig er hægt að draga úr hættunni á að eldur berist milli frístundahúsa eða yfir vegi og skurði sem ættu annars að hólfa svæðin af og hefta útbreiðslu elds. Dvöl í frístundahúsum fylgir oft aukin notkun brennanlegra efna og vökva, t.d. eldsneytis fyrir sláttuvélar, gass o.þ.h. sem getur skapað eldhættu og þarfnast því réttrar meðhöndlunar og frágangs. Frístundabyggðir eru gjarnan í nokkurri fjarlægð frá starfsstöðvum slökkviliða, þannig að þegar eldur kviknar getur langur tími liðið þar til hjálp berst og tjón getur því orðið verulegt. Því er mikilvægt að vel sé hugað að brunavörnum í frístundabyggðum og í frístundahúsum. Mikilvægt er að varlega sé farið með eld, gróðursvæði séu skipulögð, uppsöfnun á brennanlegum efnum lágmörkuð, aðkoma slökkviliðs sé greið, vatnsöflun góð og ekki síst að flóttaleiðir séu vel skilgreindar og kynntar. Þannig er unnt að draga úr líkum á upptökum og útbreiðslu elds með tilheyrandi tjóni.
Plaggat með helstu leiðbeiningum.
Leiðbeiningar um Brunavarnir í frístundabyggð