BSRB hefur boðað til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Forysta BSRB hafnaði kjarasamningstilboði árið 2020 en gerir nú kröfu um að sveitarfélögin bæti fyrir þá ákvörðun bandalagsins.
Samband íslenskra sveitarfélaga vísar alfarið á bug fullyrðingum BSRB um meint misrétti í launum milli starfsfólks sem heyra undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands annars vegar og bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB hins vegar.
Bæði BSRB og SGS bauðst árið 2020 kjarasamningur með gildistíma út september 2023. Með þeim samningi fylgdi ný launatafla (launatafla 5) sem tók gildi 1. janúar 2023. Forysta SGS samþykkti slíkan samning en forysta BSRB hafnaði samningnum alfarið en samdi þess í stað um styttri samningstíma, til 31. mars 2023, án launatöflu 5.
Krafa forystu BSRB í dag er að félagsmenn þeirra fái engu að síður launatöflu 5 sem þau höfnuðu árið 2020. Sveitarfélögin árétta að þau hafa að fullu efnt kjarasamning sinn við BSRB.
Samninganefnd bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB vísaði kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara sem kallaði aðila til fyrsta fundar þann 12. apríl síðastliðinn.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur frá upphafi hafnað kröfu bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB um það sem nefnt er af bandalaginu leiðréttingu á launum og vísað á bug fullyrðingum um meint misrétti í launum milli starfsfólks sem heyra undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands, annars vegar, og bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB, hins vegar, á tímabilinu 1. janúar 2023 til 31. mars 2023.
Mismunandi launasetning á þessu tímabili skýrist af ólíkri samningsniðurstöðu í kjarasamningum þessara aðila við Samband íslenskra sveitarfélaga sem undirritaðir voru á árinu 2020.
Í janúar 2020 undirritaði Starfsgreinasambandið kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga er gildir út september 2023. Vegna þeirrar skuldbindingar sem felst í lengri samningstíma fylgdi kjarasamningi Starfsgreinasambandsins launatafla 5 sem tók gildi 1. janúar 2023 og tryggði starfsfólki innan Starfsgreinasambandsins launahækkun frá þeim tíma.
Í mars mánuði 2020 höfnuðu bæjarstarfsmannafélögin tilboði Sambands íslenskra sveitarfélaga um sama kjarasamning og Starfsgreinasambandið hafði þegar undirritað.
Niðurstaða kjaraviðræðna við bæjarstarfsmannafélögin varð sú að gerður var styttri kjarasamningur með gildistíma til 31. mars 2023. Vegna mun styttri samningstíma fylgdi launatafla 5 ekki kjarasamningi bæjarstarfsmannafélaganna.
Kjarasamningur Sambands íslenskra sveitarfélaga við bæjarstarfsmannafélögin var gerður af til þess bærum aðilum sem fara með umboð til kjarasamningagerðar og bera þá ábyrgð sem slíkt umboð felur í sér. Kjarasamningurinn var undirritaður af samninganefndum beggja aðila, samþykktur í atkvæðagreiðslu félagsmanna og af stjórn sambandsins.
Sveitarfélögin hafa að fullu efnt þann kjarasamning sem gerður var við bæjarstarfsmannafélögin á árinu 2020.
Samninganefnd bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB vísaði kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara, sem kallaði aðila til fyrsta fundar þann 12. apríl síðastliðinn.
Þegar deilunni var vísað til ríkissáttasemjara lá á borðinu tilboð frá SNS um 12 mánaða kjarasamning aðila þar sem laun bæjarstarfsmanna myndu hækka um 8,78% frá 1. apríl 2023. Orlofsuppbót 1. maí 2023 yrði 55.700 kr. og desemberuppbót 1. desember 2023 yrði 130.900 kr. Einnig fylgir kjarasamningunum rýmkun á heimildum til að taka uppsafnað orlof, auk þess sem gildistími fylgiskjala 2 og 3 um betri vinnutíma er framlengdur út gildistíma samningsins. Með samningnum fylgir sameiginleg verkáætlun um verkefni sem aðilar vinni á samningstímanum s.s. um betri vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu, endurskoðun á veikindakafla kjarasamninga og um fyrirkomulag ráðningar í tímavinnu. Tilboð SNS er í fullu samræmi við tilboð þess gagnvart öðrum viðsemjendum og þeim meginlínum sem opinberir vinnuveitendur hafa komið sér saman um varðandi yfirstandandi samningalotu og í samræmi við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
Deila aðila varðar hins vegar ekki þetta tilboð heldur snýst hún um kjarasamning sem hafði gildistíma frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023 og ákvörðun sem forysta bæjarstarfsmannafélaganna tók í því samningaferli árið 2020.
Í kjaraviðræðum ársins 2020 lagði SNS áherslu á að gera kjarasamninga við almenn stéttarfélög innan ASÍ og stéttarfélög innan BSRB sem hefðu gildistíma til 30. september 2023. Því tilboði fylgdi viðbótarlaunatafla, svokölluð launatafla 5 og gildir til 30. september 2023.
Starfsgreinasambandið, auk fleiri stéttarfélaga, undirritaði kjarasamning við SNS 16. janúar 2020 með gildistíma til 30. september 2023.
Bæjarstarfsmannafélögum var boðinn samskonar samningur með gildistíma til 30. september 2023 sem þau höfnuðu alfarið og töldu hag sinna félagsmanna betur borgið í kjarasamningi sem undirritaður var 8. mars með gildistíma til 31. mars 2023.
Fyrirliggjandi eru tölvupóstar er gegu á milli aðila þann 8. mars 2020 sem staðfesta að tilboð um kjarasamning er hefði gildistíma út september 2023 var lagt fram af SNS og einnig þar sem eindregin vilji bæjarstarfsmannafélaga um styttri gildistíma kemur skýrt fram. Bæði Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður samninganefndar bæjarstarfsmannafélaga, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB voru aðilar að þessum tölvupóstsamskiptum.
Niðurstaða samninga við bæjarstarfsmannafélögin varð því kjarasamningur, án launatöflu 5, er rann út 31. mars síðastliðinn.
Þegar ný launatafla tók gildi 1. janúar 2023 hjá þeim stéttarfélögum sem samið höfðu við SNS um kjarasamning með launatöflu 5 og gildistíma til 30. september 2023 lá fyrir að mismunandi samningar skiluðu lægri launum til félagsmanna bæjarstarfsmannafélaga fyrstu þrjá mánuði ársins 2023.
Bæjarstarfsmannafélögin gera nú þá kröfu á SNS að leiðrétta fyrri ákvörðun forystu bæjarstarfsmannafélaganna í samningagerðinni árið 2020, með þeim hætti að félagsmönnum þeirra verði greiddur þessi þriggja mánaða launamunur sem þau telja vera 128.000 kr. að meðaltali auk launatengdra gjalda. SNS hefur alfarið hafnað þessari kröfu.
Verði ákvörðun tekin um að verða við kröfu bæjarstarfsmannafélaganna myndi það þýða að slík eingreiðsla myndi flæða yfir á aðra viðsemjendur SNS, enda hafa aðildarfélög BHM og fleiri félög lagt fram sömu kröfu. Ljóst er að viðbótarkostnaður sveitarfélaga við að mæta þessari nýju kröfu bæjarstarfsmannafélaganna yrði um 1 milljarður króna og ef aðrir viðsemjendur SNS myndu fá slíkt hið sama myndi kostnaðurinn fara yfir 3 milljarða króna.
Stéttarfélög hafa sjálfstæðan samningsrétt til gerðar kjarasamninga. Árið 2020 voru gerðir kjarasamningar við bæjarstarfsmannafélögin sem samþykktir voru í atkvæðagreiðslu félagsmanna og samþykktir af stjórn sambandsins.
Stjórn og kjaramálanefnd sambambandsins hafa fjallað um málið og eru sammála því að hafna þessari kröfu félaganna, enda hafa sveitarfélögin að fullu efnt þá samninga sem gerðir voru árið 2020.