Aðilar menntakerfisins treysta samstarf sitt með nýrri Menntamiðju

Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun og Kennarasamband Íslands hafa undirritað samstarfssamning um Menntamiðju, samráðsvettvangs um skóla- og frístundastarf og starfsþróun fagstétta í menntakerfinu. Samningurinn nær til þriggja ára og kveður á um aðkomu að rekstri Menntamiðju.

©Kristinn Ingvarsson

Samstarfsgátt í skóla- og frístundastarfi 

Menntamiðja hefur verið starfrækt frá árinu 2012 og hefur þjónað sem samstarfsvettvangur stofnana og hópa innan skólasamfélagsins. Menntamiðja hefur verið umgjörð starfssamfélaga þar sem framsækin grasrótarverkefni blómstruðu, fjölbreytt torg urðu til og þekkingu var deilt. Á nýju vefsvæði Menntamiðju verður miðlað óformlegri starfsþróun sem sprettur upp úr grasrót faghópa í menntakerfinu og formlegri starfsþróun af hálfu eigenda Menntamiðju. Með óformlegri starfsþróun er átt við torg utan um ýmis viðfangsefni, menntabúðir, hópa á samfélagsmiðlum og fjölmenn og fámenn teymi kennara og fagfólks sem blómstra um land allt. Jafnframt er að finna á vefnum greinargott yfirlit yfir útgáfu og hlaðvörp sem geta nýst starfsfólki og yfirlit yfir styrktarsjóði.Menntamiðja verður enn fremur vettvangur til miðlunar á rannsóknum sem eiga erindi við menntakerfið og fyrir samstarf um þróunarstarf, nýsköpun og nýliðun kennara og annars starfsfólks. 

Starfsþróun til eflingar íslensku menntakerfi 

Burðarás Menntamiðju verður fjölbreytt úrval starfsþróunarnámskeiða sem sveitarfélög og háskólar landsins bjóða upp á. Á vef Menntamiðju verður miðlað stuttum og lengri námskeiðum, bæði örsmiðjum og einingabærum námskeiðum, á fjölbreyttum sviðum skóla- og frístundastarfs. Viðburðardagatal menntakerfisins miðlar upplýsingum til kennara og starfsfólks um það sem er efst á baugi enda eru ráðstefnur, menntabúðir og málþing snar þáttur í starfsþróun hvers og eins.  

Námskeið undir hatti Menntafléttunnar – námssamfélaga í skóla- og frístundastarfi verða kynnt á vef Menntamiðju, sjá nánar Starfsþróun í menntakerfinu elft með ríkulegu fjárframlagi 

Menntamiðja verður hýst hjá Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og er fyrirhugað að samstarfsaðilar skipi stýrihóp fyrir vettvanginn sem fundar reglulega. Samstarfsaðilar skipa jafnframt ritstjórn sem hittist mánaðarlega og tekur afstöðu um miðlun efnis á vef Menntamiðju. Áhersla er lögð á tengingu milli stofnana, skóla og fræðasamfélagsins með gagnkvæman ávinning allra aðila að leiðarljósi.