17. júl. 2015

Aðgerðir til að auka lýðræðislega þátttöku

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins vinnur að því að auka sjálfsstjórn og lýðræði í evrópskum sveitarfélögum.  Það stendur árlega fyrir átaki sem felst í því að hvetja sveitarfélög til að skipuleggja sérstakar aðgerðir í eina viku í október til að vekja athygli á lýðræðislegu hlutverki sveitarfélaga og mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku íbúa. Átakið gengur undir nafninu: „European Local Democracy Week“ eða „ELDW“ og tímasetningin í október var valin vegna þess að 15. október 1985 var Evrópusáttmáli um sjálfsstjórn sveitarfélaga opnaður til undirritunar. Ísland hefur fullgilt þennan sáttmála sem er mikilvægur hornsteinn fyrir sjálfstjórn sveitarfélaga og er vísað til hans í nýju sveitarstjórnarlögunum.

Hér að neðan og á tenglinum  ELDW website eru upplýsingar um lýðræðisvikuna 2015 og hvernig hægt er að skrá sig til þátttöku. Sveitarstjórnarþingið mælir með því að sveitarfélög beini aðgerðum að vikunni  12.-18. október en þau eru að ekki  bundin af þeirri tímasetningu.   Yfirskrift vikunnar í ár vísar til fjölmenningarlegra samfélaga í sveitarfélögum, ‘Living together in multicultural societies: respect, dialogue, interaction', og það sem liggur að baki eru m.a. hryðjuverkaárásirnar í París o.fl. evrópskum borgum.

Evrópuráðið stendur einnig fyrir lýðræðisatburði í nóvember. Það er ráðstefna, “World Forum for Democracy 2015”,  sem verður haldin í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg, Frakklandi, 18.-20. nóvember.  Þar verður ein vinnustofa tileinkuð aðgerðum til að auka þátttökulýðræði í sveitarfélögum. Ætlunin er að vinnustofan verði stofnfundur fyrir samstarfsnet sveitarfélaga um íbúaþátttöku sem Evrópuráðið mun síðan styðja við.  Nánari upplýsingar eru í meðfylgjandi skjali og í því er líka umsóknareyðublað fyrir þátttöku. Sveitarfélög, sem hafa reynslu og metnað til auka þátttöku íbúa,  geta með því að sækja um átt möguleika á fjárstuðningi frá Evrópuráðinu til að taka þátt í vinnustofunni.

Að lokum er rétt að geta þess að sambandið stefnir að því að standa fyrir námsferð fyrir sveitarstjórnarmenn vorið 2016 til að kynna íbúalýðræðismál í sænskum sveitarfélögum en þau eru mjög framarlega á því sviði á heimsvísu.

Einnig er tilefni til að minna í þessu samhengi á handbók um lýðræði í sveitarfélögum, sem gefin var út 2012 af sambandinu og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Ísland.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um umsóknareyðublað:  WFD2015-Workshop-ParticipatoryCities_Call-for-Applications