Aðgerðir í menntamálum kynntar – nýliðun kennara

Launað starfsnám og námsstyrkir eru á meðal þeirra aðgerða stjórnvalda, sem ætlað er að fjölga nýliðum og sporna gegn brotthvarfi í kennarastétt. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í dag umfangsmiklar aðgerðir í menntamálum sem koma til framkvæmda þegar í haust.

Launað starfsnám og námsstyrkir eru á meðal þeirra aðgerða stjórnvalda, sem ætlað er að fjölga nýliðum og sporna gegn brotthvarfi í kennarastétt. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í dag umfangsmiklar aðgerðir í menntamálum sem koma til framkvæmda þegar í haust.

Þá mun starfandi kennurum einnig bjóðast styrkir til náms í starfstengdri leiðsögn, en leiðsagnarkennurum er m.a. ætlað að sporna gegn brotthvarfi hjá nýútskrifuðum kennurum úr starfi, sem hefur verið talsvert hjá ungkennurum á þremur fyrstu starfsárum þeirra. 

Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum sem unnar voru í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólans á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins.

Launað starfsnám mun, frá og með næsta hausti, standa nemendum til boða sem eru á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. Ætlunin er að hvetja með þessu móti til þess, að nemendurnir ljúki námi á tilsettum tíma og hefji kennslu sem fyrst að námi loknu.

Í kynningu ráðherra kom einnig fram, að starfsnámið skuli samsvara að lágmarki 50% starfshlutfalli við leik- og grunnskóla og að laun verði greidd samkvæmt kjarasamningi í eitt skólaár. Einnig er gert ráð fyrir að kennaranemar njóti leiðsagnar reynds kennara á vettvangi.

Í máli ráðherra kom í þessu sambandi fram, að meirihluti kennaranema á meistarastigi séu nú þegar starfandi í leik- og grunnskólum landsins.  Svo að sem flestir nemar komist í launað starfsnám sé því nauðsynlegt að skólar, sveitarfélög, háskólar og mennta- og menningarmálaráðuneyti vinni náið saman.

Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi einnig sótt um námsstyrki, frá og með næsta hausti. Markmiðið er að auðvelda nemendum lokaverkefnisskil samhliða launuðu starfsnámi. Námsstyrkurinn nemur 800 þ.kr. og greiðist í tvennu lagi. Verður fyrri greiðslan bundin skilum á verkefnisáætlun vegna lokaverkefnis og sú síðari við skil á lokaverkefni innan tiltekins tímaramma. 

Í þriðja og síðasta lagi kynnti ráðherra styrki til starfandi kennara vegna náms í starfstengdri leiðsögn. Námið er þrjár annir og er sniðið að starfandi kennurum. Mun mennta- og menningarmálaráðuneyti styrkja Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands til að fjölga útskrifuðum kennurum með slíka sérhæfingu. 

Þessir styrkir verða veittir að því tilskyldu að skólastjórnendur styðji umsókn kennara um námið. Einnig getur dreifing styrkjanna á milli skóla og landshluta haft hér áhrif, en að sögn ráðherra er ekki síður mikilvægt að sem flestir skólar landsins hafi innan sinna raða sérhæfða kennara í starfstengdri leiðsögn kennaranema.

Hvað kostnaðarmat snertir, þá kemur fram í áðurnefndu upplýsingaefni að að áætlaður kostnaður vegna námsstyrkja nemi fyrst í stað um 200-250 m.kr. á ári og allt að 320 m.kr. skólaárið 2024-2025. Vegna strykja til starfandi kennara er kostnaður áætlaður 5 m.kr. á ári í fimm ár eða 25 m.kr. alls.

Hvað kostnaðarmat vegna sveitarfélaganna snertir, hefur kostnaðarmatshópur sem skipaður var vegna aðgerðanna, unnið í því mati. Meginkostnaður sveitarfélaganna, sem felst aðallega í leiðsögn nýliða og afleysingu kennara sem eru í leiðsagnarnámi, er nokkuð mismunandi allt eftir forsendum hverju sinni, en miðað við tvær ólíkar sviðsmyndir, sem nefndin setti upp, er talið að hlutdeild sveitarfélaga geti numið um 42% til 60% af heildarkostnaði hins opinbera. Það þýðir, að kostnaður sveitarfélaga hleypur í upphafi á 51/126 m.kr. - allt eftir þeim fjölda sem aðgerðirnar ná til. Samsvarar það um 187/404 m.kr. skólaárið 2021-2022 og 233/510 m.kr. skólaárið 2024-2025, svo að dæmi séu tekin.

Þá eru í upplýsingaefni ráðuneytisins vegna aðgerðanna tínd saman ýmis sláandi dæmi um það ófremdar ástand sem stefnir í að óbreyttu. Sem dæmi, þá vantar nú um 1.800 leikskólakennara til starfa m.v. gildandi ákvæði laga um lágmarkshlutfall fagmenntaðra kennara í leikskólum. Staðan gæti jafnframt orðið sú, að allt að fjórðungur eða 1.200 kennarastöður verði skipaðar starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár.