Aðgerðir í húsnæðismálum á landsbyggðinni

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent inn umsögn um tillögur í samráðsgátt sem eru settar fram í þremur liðum og snúa að stofnkostnaði íbúðabygginga, fjármögnun þeirra og leiðum til þess að efla leigumarkað. Heilt á litið er umsögnin afar jákvæð enda eru þær tillögur sem nú eru kynntar í góðu samræmi við áherslur í stefnumörkun sambandsins 2018-2022.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent inn umsögn um tillögur í samráðsgátt sem eru settar fram í þremur liðum og snúa að stofnkostnaði íbúðabygginga, fjármögnun þeirra og leiðum til þess að efla leigumarkað. Heilt á litið er umsögnin afar jákvæð enda eru þær tillögur sem nú eru kynntar í góðu samræmi við áherslur í stefnumörkun sambandsins 2018-2022. Tillögurnar eru jafnframt í ágætu samræmi við tillögur átakshóps um aðgerðir í húsnæðismálum og byggðaáætlun 2018-2022, þar sem m.a. er lögð áhersla á að fjölga íbúðum á svæðum þar sem eru sóknarfæri til þess að rjúfa stöðnun í atvinnumálum en skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar uppbyggingu. Eðlilegt er að leggja áherslu á að allar tímaáætlanir um innleiðingu þessara tillagna, að meðtöldum laga- og reglugerðabreytingum, standist.

Sambandið telur þó tilefni til að benda á að í tillögunum er ekki vikið að takmörkunum á skammtímaleiguhúsnæði til ferðamanna, sem getur haft neikvæð áhrif á húsnæðismarkað, ekki síst á landsbyggðinni. Í stefnumörkun sambandsins er kallað eftir því að horft verði til styttingar leigutíma, aukins eftirlits og virkni þvingunarúrræða (3.3.29). Sambandið er hins vegar meðvitað um að löggjöf um gististaði er ekki á forræði félagsmálaráðuneytisins og kallar fyrst og fremst eftir því að stefna stjórnvalda í húsnæðismálum verði samræmd. Einnig er tilefni til þess að hvetja ráðherra til að leggja sem fyrst fram tillögur um stuðning við fyrstu íbúðakaup. Æskilegt væri að fyrirhugaðar breytingar á húsnæðislöggjöf hljóti samþykki á komandi haustþingi.