Aðgerðir gegn þeim sem ganga illa um grenndarstöðvar 

Sveitarfélög starfrækja flest grenndarstöðvar þar sem íbúar og í einhverjum tilfellum lögaðilar geta skilað flokkuðum úrgangi til endurnotkunar og endurvinnslu og annarar endurnýtingar. Frá byrjun árs 2023 hefur hvílt sú skylda á sveitarfélögum að sérsafna gleri, málmum og textíl og getur söfnunin verið á grenndarstöðvum.

Jafnframt tíðkast að safna drykkjarvöruumbúðum með skilagjaldi á slíkum stöðvum og í einhverjum tilfellum er boðið upp á söfnun á plasti og pappírsefnum sem íbúar geta nýtt sér þegar ílát við heimili þeirra fyllast. Grenndarstöðvar eru ómannaðar stöðvar og við þær hefur oft safnast úrgangur sem ekki á þar heima auk þess sem umgengni við stöðvarnar er oft ekki sem skyldi.  

Í Svíþjóð er sama upp á teningnum og söfnuðust 18 tonn af úrgangi sem ekki átti þar erindi á einum mánuði við 60 grenndarstöðvar í Burlöv og Malmö. Úrgangurinn var allt frá sófum, ísskápum, svörtum pokum með blönduðum úrgangi, byggingarúrgangi til brotinna leikfanga. Sums staðar hefur verið var þörf á hreinsun á óboðnum úrgangi sem skilin var eftir við gáma á grenndarstöðinni á hverjum einasta degi.  

Unnið er að því að reyna að koma í veg fyrir að notendur grenndarstöðva skilji eftir úrgang sem ekki á þar heima og jafnvel lögsækja þá sem ganga illa um stöðvarnar. Samkvæmt  VA Syd, sem er í eigu sveitarfélaga á svæðinu og sér um rekstur stöðvanna, þá er í sumum tilfellum um þekkingarskort að ræða en einnig er talið að á einhverjum stöðvum sé um kerfisbundin undirboð að ræða. Þannig að til dæmis úrgangi frá fyrirtækjum er komið fyrir við söfnunargáma á grenndarstöðvum af flutningsaðila sem hefur fengið greitt fyrir að skila honum í viðeigandi meðhöndlun þar sem jafnvel þarf að greiða gjald fyrir móttökuna. 

Til að takast á við vandamálin er VA Syd í samstarfi við sveitarfélög og fasteignaeigendur að nýta stafrænar lausnir auk þess sem sænska lögreglan hefur verið fengin í málið. Ein aðgerðin sem gripið hefur verið til er að setja upp eftirlitsmyndavélar á grenndarstöðvar í Malmö. Þannig náðist að bera kennsl á þá sem gengu illa um stöðvarnar og þeir tilkynntir til lögreglu. Vonast er til að þeir verði sóttir til saka því að það er talið hafa varnaðaráhrif á þá sem vísvitandi nota stöðvarnar á rangan hátt. 

Frétt sænska tímaritsins Recycling.