Aðgerðaráætlun vegna Árósarsamningsins til umsagnar

Samband íslenskra sveitarfélaga bendir í umsögn sinni vegna Árósarsamningsins á, að stórauka verði fjárframlög til umhverfisverndarsamtaka svo að þau fái staðið undir auknum verkefnum. Tillaga umhverfis- og auðlindaráðuneytis að aðgerðaráætlun um innleiðingu samningsins hér á landi 2018-2021 er nú til umsagnar

The-aarhus-convention-imp-guide

Samband íslenskra sveitarfélaga telur jákvætt, í umsögn sinni vegna Árósarsamningsins, að sjónarmið umhverfisverndarsamtaka komi fram á fyrri stigum í opinberu ákvarðanatökuferli. Umsögnin er til komin vegna tillögu umhverfis- og auðlindaráðuneytis að aðgerðaáætlun um innleiðingu samningsins hér á landi 2018-2021, sem er nú til umsagnar

Hvað stöðu sveitarfélaga snertir, þá telur sambandið ekki síður mikilvægt að ábendingar umhverfisverndarsamtaka komi snemma fram, svo að bregðast megi við þeim í tíma. Í mörgum tilvikum sé reyndin þó ekki sú og geti það eðlilega valdið óánægju eftir langt og strangt undirbúningsferli hjá sveitarfélagi. Raunar sé hér um algert lykilatriði að ræða fyrir skilvirkari ákvarðanatökuferli, s.s. í skipulagsmálum.

Sambandið telur enn fremur óhjákvæmilegt að benda á, að þau umhverfisverndarsamtök sem eru hvað virkust hér á landi hafi takmörkuð fjárráð, sem sníði svo aftur starfsemi þeirra þröngan stakk. Framlög stjórnvalda til þeirra samtaka þyrfti því að stórauka með hliðsjón af þeim verkefnum sem leggja á þeim til.

Jafnframt er minnt á, að aðrir hagsmunir en náttúruvernd geti átt erindi á fyrri stigum ákvarðanatöku og er því að mati sambandsins ekki sérstakt tilefni til þess, að veita umhverfisverndarsamtökum sterkari stöðu í nefndum og ráðum en t.a.m. fulltrúum atvinnulífsins, sbr. aðgerð 4 í tillögunni að aðgerðaáætlun.  Benda má jafnframt á að þessi afstaða réð jafnframt því að sambandið lagðist gegn því í umsögn sinni um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða, að umhverfisverndarsamtök ættu áheyrnarfulltrúa í svæðisráðum fyrir strandsvæðaskipulag.

Árósasamningurinn var fullgiltur á Íslandi 2011, en hann leggur aðildarríkjum m.a. þær skyldur á herðar að tryggja almenningi aðgengi að upplýsingum um umhverfismál og áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið. Aðildarríki skila reglubundnum skýrslum til skrifstofu samningsins þar sem farið er yfir stöðuna hverju sinni á innleiðingu samningsákvæða. Hefur Ísland skilað slíkri skýrslu í tvígang eða árin 2014 og 2017.

Tillögur ráðuneytisins má rekja til þess, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskoðun á aðgengi frjálsra félagasamtaka að ákvörðunum á sviði umhverfismála. Markmiðið er að aðkoma almennings á fyrri stigum leyfisveitingarferlis geti orðið skilvirkari án þess að gengið sé á rétt hans.

Umsagnarfrestur um tillöguna er til og með 15. júlí nk.