Sú kynslóð sem nú er uppi má ekki fórna lífsgæðum komandi kynslóða fyrir stundarhagsmuni, sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í ávarpi sínu á málþinginu Sveitarfélögin og loftslagsmál, sem stendur nú yfir. Málþingið markar ákveðin tímamót hjá sem fyrsti viðburður sambandsins sem helgaður er alfarið loftslagsmálum.
Sú kynslóð sem nú er uppi má ekki fórna lífsgæðum komandi kynslóða fyrir stundarhagsmuni, sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í ávarpi sínu á málþinginu Sveitarfélögin og loftslagsmál, sem stendur nú yfir. Málþingið markar tímamót sem fyrsti viðburður sambandsins sem helgaður er alfarið loftslagsmálum.
Lífsgæði framtíðarinnar felast ekki í óbreyttu ástandi. Leiðin að lífsgæðum framtíðarinnar er vörðuð umhverfisvitund, minni sóun, tæknilausnum og risastórum skammti af heilbrigðri skynsemi. Af henni er aldrei nóg!
Aldís brýndi fyrir sveitarfélögum mikilvægi aðgerða og samstarfs fyrir árangur í loftslagsmálum. Menn spyrji sig eðlilega hvaða máli sveitarfélög smáríkis lengst norður í ballarhafi skipti fyrir stóru myndina. Hverju aðgerðir þeirra geti í reynd breytt ef stórþjóðirnar og stórfyrirtækin sem græða á nýtingu jarðefnaeldsneytis haldi bara áfram að menga. „En svarið er í raun sáraeinfalt, sagði Aldís. „Við eigum engan annan kost. Aðgerðaleysi er ekki valkostur!“
Á meðal þess sem Aldís undirstrikaði í ávarpi sínu er nauðsyn góðs samstarfs milli ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir í loftslagsmálum og stiklaði hún í því samhengi á helstu ábendingum í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá sl. hausti.
Sambandið kallar einnig eftir því að stjórnvöld tryggi aðkomu sveitarfélaga að einstökum verkefnum loftslagsáætlunar á eins breiðum grunni og kostur er og að þeim sveitarfélögum sem lengst eru komin sé gert kleift að miðla reynslu sinni til annarra sveitarfélaga.
Þá kalla sveitarfélögin einnig eftir skýrari áherslum um atriði sem snúa að skipulagi í þéttbýli og þörf fyrir breytingum á samgönguvenjum. Með því að leggja áherslu á gangandi og hjólandi umferð jafnhliða auknum almenningssamgöngum megi ná fram samþættum áhrifum samfara minni losun gróðurhúsalofttegunda, bættum loftgæðum og betri lýðheilsu.
Varðandi orkumálin, minnti Aldís jafnframt á, að stjórnvöld verði að beita sér fyrir greiðari orkuöflun og orkuflutningum, eigi markmið aðgerðaráætlunarinnar um aukna notkun innlendra orkugjafa að nást. Ljúka verði í því sambandi vinnu við að skýra lagaumhverfi vindorkuvera og fá úr því skorið hvort ný vindorkuver eigi að vera háð þeirri tímafreku málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Einnig kallar sambandið eftir því að vinnu við endurskoðun á fyrirkomulagi skattlagningar á raforkumannvirki verði lokið sem fyrst, svo að skapa megi aukna sátt um byggingu slíkra mannvirkja.
Þá sagði Aldís að aðgerðaáætlun um loftslagsmál verði að ákvarða sérstöku fjármagn til fræðslu um loftslagsmál fyrir fyrirtæki, skóla og almenning. Að sama skapi verði að vekja athygli á möguleikum rekstraraðila til að nýta hagræna hvata til að breyta ferðavenjum, s.s. með samgöngusamningum við starfsfólk og aukinni upplýsingagjöf um vistvæna ferðamáta.