Aðgerðaáætlun um að draga úr plastmengun

Samband íslenskra sveitarfélaga telur brýnt að draga úr plastmengun og lýsir áhuga á að ræða við umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir sem samráðsvettvangur um aðgerðir til að draga úr plastmengun hefur lagt fram. Þetta kemur fram í umsögn sambandsins um drög að aðgerðaáætlun til að draga úr plastmengun: „Með vinnu samráðsvettvangsins er stigið fyrsta skrefið í átt að þessu markmiði en áður en ákvarðanir eru teknar um val á leiðir þarf að liggja fyrir vönduð ábata- og kostnaðargreining um þær mögulegu leiðir sem samráðsvettvangurinn bendir á. Af hálfu sambandsins er eindregið tekið undir lokaorð skýrslunnar um að tillögurnar nýtist til að vinna áfram að verkefninu en þar er jafnframt lögð áhersla á að víðtækt samráð verði haft við haghafa um að koma þeim í framkvæmd.“

Samband íslenskra sveitarfélaga telur brýnt að draga úr plastmengun og lýsir áhuga á að ræða við umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir sem samráðsvettvangur um aðgerðir til að draga úr plastmengun hefur lagt fram. 

Í umsögn sambandsins um drög að aðgerðaáætlun samráðsvettvangsins segir, að fyrsta skrefið hafi veri stigið í átt að því að draga úr plastmengun og tekið er eindregið undir þau lokaorð í drögunum, að tillögurnar nýtist til að vinna áfram að verkefninu í víðtæku samráði við haghafa. Áskorunin sé stór og árangur háður því að neysluvenjur fólks og fyrirtækja breytist. 

Hvatt er því til þess, að vönduð ábáta- og kostnaðargreining verði gerð um þær mögulegu leiðir sem samráðvettvangurinn bendir á, áður en ákvarðanir verði teknar um val á leiðum. Þá telur sambandið einnig brýnt að fram fari rannsóknir á áhrifum plastmengunar á lífríki í hafi. Slíkar rannsóknir hljóti að vera grundvöllur stöðugreininga og árangursmælinga þeirra aðgerða sem ráðist verður í.

Bent er jafnframt á, að forgangsröðun tillagna liggi ekki fyrir, né tillögur um fjármögnun eða mat á áhrifum þeirra, en ljóst sé að sumar tillagnanna geti haft mikil fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélögin. Þá gefi tillögur samráðsvettvangsins ekki heildarmynd af þeim áskorunum sem þörf er á að skoða. Sérstök ástæða sé til þess, að skoða þann mikla fjölda plasttegunda sem eru í umferð og hverjar af þeim eigi sér skýran endurvinnslufarveg. Þá skorti umfjöllun um samsettar umbúðir, sem eru að stærstum hluta óendurvinnanlegar.

Sambandið leggur enn fremur þunga áherslu á, að allir mögulegir kostir til að draga úr örplastmengun verði skoðaðir. Er í umsögninni fjallað ítarlega um hugmyndir um aukna hreinsun fráveituvatns, sem er án efa umfangsmesta aðgerðin sem beinist að sveitarfélögum. Sambandið leggur einnig áherslu á að umræða um mögulegar lausnir á þessu vaxandi vandamáli einskorðist ekki við hreinsistöðvar fráveitna og uppbyggingu fráveitukerfa sveitarfélaga. Í mengunarvarnalöggjöf er almennt lögð megináhersla á að spornað verði gegn mengun, m.a. frá atvinnustarfsemi, með kröfum um viðeigandi hreinsibúnað, þannig að frárennsli sé eins lítið mengað og frekast er unnt. 

Varðandi frásíun fráveitukerfa á örplasti, er einnig minnt á að ríkið hafi enn ekki sinnt ákalli sveitarfélaga um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda, en hreyft var fyrst við því máli fyrir meira en áratug.

Fyrstu átta tillögur í drögum aðgerðaáætlunarinnar lúta að því að draga úr notkun plasts. Sambandið tekur undir meginmarkmið þessara tillagna og er sammála því að draga megi verulega úr notkun plastumbúða, einnota borðbúnaðar úr plasti og öðrum plastvörum sem tengjast neyslu almennings. Mikilvægt sé þó að greina ekki eingöngu kostnað ríkis og sveitarfélaga af einstökum tillögum heldur þurfi einnig að fara fram ábatagreining til að leiða fram kosti og galla einstakra tillagna.

Þá er sambandið ekki sammála því að nauðsynlegt sé að lögbinda ákveðið flokkunarkerfi fyrir úrgang hér á landi. Veruleg umræða fór fram í þeim efnum fyrir nokkrum árum í tengslum við breytingar á úrgangslögum og var niðurstaðan sú að setja fyrirkomulag úrgangsflokkunnar í hendur sveitarfélaga og annarra þeirra sem meðhöndla úrgang, sbr. lög nr. 63/2014. Veruleg tækifæri séu á hinn bóginn ónýtt til þess að vinna að auknu samræmi milli sveitarfélaga varðandi úrgangsflokkun og  einnig megi auka samstarf sveitarfélaga í stefnumótun og fræðslu til íbúa um úrgangsmál.

Umsagnarfrestur um málið var til 3. desember sl. og verða niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust. Alls bárust 15 umsagnir um málið sem nálgast má á samráðsgátt ríkisins.